Pödduvefur Náttúrufræðistofnunar 1 árs!


Forarsveifa er ein af þeim smádýrategundum sem fræðast má um á pödduvef Náttúrufræðistofnunar. Ljósm. Erling Ólafsson.

Fjallað er um pöddur af ýmsu tagi, tegundir sem lifa í íslenskri náttúru og görðum landsmanna, híbýlum og gripahúsum, útlendar tegundir sem flækjast til landsins með vindum, svo og tegundir sem slæðast með varningi. Pistlunum er komið fyrir í ofangreindum efnisflokkum til að einfalda aðganginn. Auk þess er ábendingarhnappur á upphafssíðu sem vísar á nýjustu viðbætur til að létta undir með þeim sem fylgjast með reglulega.

Sagt er frá útbreiðslu tegundanna utan lands sem innan, lífsháttum þeirra og ýmsum öðrum fróðleik sem kann að vekja áhuga. Umfjöllunin er að hluta til stöðluð en tegundir gefa vissulega misjafnt tilefni til málalenginga, t.d. liggur fyrir misgóð þekking á lífsháttum.

Textana semur Erling Ólafsson, skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun, og eru þeir byggðir á innlendum sem erlendum heimildum og upplýsingum sem varðveittar eru í gagnagrunni stofnunarinnar. Erling vinnur markvisst að því að ljósmynda pöddurnar og koma sér upp myndabanka með pöddumyndum. Val tegunda til kynningar ræðst að miklu leyti af myndum sem fyrir liggja.

Í flýtivali hér til vinstri er hægt að fara beint inn á pödduvefinn.