Farflug kríunnar - hulunni svipt af lengstu ferðalögum dýra í heiminum


Stund milli stríða. Krían flýgur meira en 70 þúsund kílómetra á árlegu farflugi póla á milli. Ljósm. Carsten Egevang.

Vísindamenn frá Grænlandi, Danmörku, Bandaríkjunum, Bretlandi og Íslandi hafa kortlagt nákvæmlega ferðir kríunnar frá varpstöðvunum á norðurslóðum til vetrarheimkynna við Suðurheimskautið. Niðurstöðurnar staðfesta það sem hefur verið álitið lengi að kríur ferðast lengra en nokkur önnur dýr á sínu árlega farflugi. Á hverju ári flýgur þessi litli fugl yfir 70 þúsund kílómetra frá Norðaustur-Grænlandi til Weddellhafsins við Suðurheimsskautið og til baka. Íslenskar kríur fara ívið styttra þó breytilegt sé hve miklar krókaleiðir einstakir fuglar fara áður en þeir ná til vetrarstöðvanna í Weddellhafinu.


Einfölduð mynd af farháttum kría, frá því þær yfirgefa varpstöðvar á Grænlandi og Íslandi síðsumars og mæta á vetrarstöðvarnar við Suðurheimsskautið. Skömmu eftir að þær byrja ferðalagið suður (gula línan) staldra fuglarnir við á miðju Norður-Atlantshafi (lítill hringur) í um mánaðartíma áður en þeir halda áfram. Vetrarheimkynni við Suðurheimskautið eru í Weddellhafinu suður og austur af Suður-Ameríku (stór hringur). Heimferðin norður á bóginn undir vor (hvíta línan) tekur yfir tvisvar sinnum styttri tíma en suðurferðin. Fuglarnir fljúga eftir ferli sem er eins og stórt „S“ norður eftir miðju Atlantshafi. Þeir reyna að koma við á svæðum sem eru fæðurík en slík hafsvæði eru sýnd í gulum eða grænum litum.

Heimferðin til varpstöðvanna á norðurhveli tekur meira en tvöfalt styttri tíma en ferðalagið suður á bóginn, eða aðeins um 40 daga. Áhugavert er að kríur velja allt aðra leið norður en í suðurferðinni og heldur ekki stystu leið. Þær halda norður eftir miðju Atlantshafi eftir ferli sem er eins og risastórt „S“. Norðurferðin er nokkur þúsund kílómetrum lengri en beinasta leið sem þær gætu tekið. Með því nýta fuglarnir sér ríkjandi veðurkerfi sem stjórnast af snúningi jarðar og spara þannig mikla orku.

Rannsóknir þessar veita glögga innsýn í ferðir þessa langförula ferðalangs. Ekki hefur verið mögulegt að fylgjast nákvæmlega með ferðum svo lítilla fugla fyrr en á allra síðustu árum. Hér kemur til nýleg tækni, lítið tæki sem kallast ljósriti („geolocator”) og er aðeins 1,4 grömm á þyngd. Tækinu er komið fyrir á fæti fugla og mælir reglulega ljósmagn sem gerir mögulegt að ná tveimur staðsetningum fyrir fugl á hverjum degi. „Notkun slíkra tækja á sjófugla hefur ekki aðeins gjörbreytt þekkingu okkar á farháttum þeirra, heldur koma niðurstöðurnar sem tækin veita einnig að góðum notum til að kortleggja hvar lífrík hafsvæði er að finna” segir Richard Phillips frá bresku heimskautastofnuninni og meðhöfundur að greininni. Rannsóknaniðurstöður sýna að atferli fugla er nátengt bæði lífrænum og ólífrænum þáttum umhverfisins. Þeir staldra til dæmis við um tíma á suðurleið á lífríku svæði á miðju Atlantshafi. Gervitungl sem mæla magn svifs í sjónum hafa sýnt að hafsvæðið skammt sunnan þessa viðkomustaðar er að miklum mun snauðara af lífi. „Kríur hafa augljóslega lært að fita sig upp áður en þær halda áfram yfir hafsvæði sem eru fremur rýr af æti” segir Carsten Egevang aðalhöfundur greinarinnar.

Kríur geta lifað yfir 30 ár og ár hvert ferðast þær póla á milli. Séu ferðirnar lagðar saman fljúga kríur sem ná slíkum aldri að fara allt að þrjár ferðir milli tunglsins og til baka. Ótrúlegt afrek af fugli sem er aðeins rétt rúm 100 grömm að þyngd.

Nánari upplýsingar er að finna á vef verkefnisins, þ. á m. greinin í heild í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Science, ýmis kort í betri upplausn og ljósmyndir sem nota má í umfjöllunum um verkefnið. Einnig er hægt að hafa samband við höfunda.

Höfundar

  • Carsten Egevang (aðalhöfundur), Grønlands Naturinstitut, Grænlandi og Danmörku – cep@dmu.dk, +45 20788099
  • Iain Stenhouse, National Audubon Society, Bandaríkjunum – iain.stenhouse@gmail.com, +207-688-8122
  • Richard Phillips, British Antarctic Survey, Englandi – raphil@bas.ac.uk, +44 (0)1223-221 610
  • Ævar Petersen, Náttúrufræðistofnun Íslands – aevar@ni.is, sími: 5900500
  • James W. Fox, British Antarctic Survey, Englandi – jwf@bas.ac.uk
  • Janet R.D. Silk, British Antarctic Survey, Englandi – jrds@bas.ac.uk