Nýtt gróðurkort af Hrísey og útbreiðslu ágengra tegunda

Hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er komin út ný skýrsla um gróðurfar í Hrísey og fylgir henni gróðurkort af eynni. Skýrslan er unnin fyrir Akureyrarbæ en vettvangsvinna hófst haustið 2007. Markmið með verkefninu var að fá yfirlit yfir gróðurfar í Hrísey og var sérstök áhersla lögð á að kortleggja útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils og fá þannig skýra mynd af framgangi þessara tegunda sem hafa breiðst hratt út í Hrísey á síðustu áratugum. Jafnframt væri hægt að spá fyrir um líklegar breytingar í framtíðinni. Auk gróðurkorta af Hrísey er útbreiðsla alaskalúpínu, skógarkerfils og ætihvannar rakin og birt á kortum í skýrslunni.

Gróðurfar í Hrísey einkennist af víðáttumiklu mólendi. Á undanförnum áratugum hafa alaskalúpína, skógarkerfill og ætihvönn orðið ríkjandi í gróðri á norðurhluta eyjarinnar. Alaskalúpína hefur verið meginfrumherji en skógarkerfill og ætihvönn hafa fylgt henni fast eftir. Kerfillinn hefur einnig lagt undir sig tún á norðurhluta eyjarinnar. Sauðfjárbeit lagðist af í Hrísey árið 1974 sem gaf þessum plöntutegundum lausan tauminn. Árið 2007 höfðu lúpína, kerfill og hvönn lagt undir sig um 90 ha eða 12% eyjarinnar. Með sama áframhaldi er líklegt að Hrísey verði öll undirlögð af þessum tegundum innan 50 ára.

Norðurhluti Hríseyjar er á Náttúruminjaskrá vegna fjölskrúðugs gróðurs og fuglalífs. Í móunum í Hrísey er eitthvert þéttasta rjúpnavarp á landinu og þar er einnig mikið varp annarra mófugla, æðarfugls og kríu. Að mati Náttúrufræðistofnunar er mikilvægt að sporna strax við útbreiðslu ágengra plöntutegunda í eynni og viðhalda þeim búsvæðum sem einkennt hafa þar land fram undir þetta. Akureyrarbær hefur undanfarin ár gert tilraunir með að hefta útbreiðslu lúpínu og kerfils í Hrísey. 

Á vef Náttúrufræðistofnunar má nálgast bæði skýrsluna og gróðurkortið af Hrísey:

Skýrsla NÍ-09011 - Gróðurkortlagning Hríseyjar 2007

Gróðurkort af Hrísey