Þistilfiðrildi koma - Upplýsinga óskað


Þistilfiðrildi (Vanessa cardui), eintak í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ljósm. Erling Ólafsson.

Þetta hátterni þistilfiðrilda er alvanalegt og hafa þau margsinnis náð til Íslands tengt sambærilegu farflugi á meginlandinu ef vindar hafa veitt þeim hagstæðan byr undir vængi. Þistilfiðrildi sem mætt hafa svo snemma sumars hafa jafnvel verpt hér og náð að geta af sér nýja kynslóð síðsumars, en vetur lifa þau ekki af.

Fyrstu merki um þessa göngu norður á bóg sáust í Færeyjum 30. maí og strax í kjölfarið voru þúsundir fiðrilda mættar til leiks hjá okkar kæru grönnum (Jens-Kjeld Jensen, Nólsoy, pers. uppl.). Hér á landi sást eitt þistilfiðrildi ca. 18. maí í Garðabæ (Morgunblaðið 20. maí) en það var fljótlega eftir að flakkið upphófst í Evrópu.

Þann 3. júní barst Náttúrufræðistofnun tilkynning um þistilfirðildi við Reykjanesvirkjun og daginn eftir önnur frá Náttúrustofu Reykjaness um tugi þistilfiðrilda og eitt aðmírálsfiðrildi þeim samferða í Sandgerði. Og sama dag (4. júní) bárust fréttir af fiðrildum á flögri í Reykjavík.

Reynt verður að fylgjast grannt með komu firðildanna til landsins og fylgja þeim atburði eftir. Því eru þeir sem verða fiðrildanna varir eindregið hvattir til að tilkynna um þau til Náttúrufræðistofnunar þar sem Erling Ólafsson, skordýrafræðingur, mun halda utan um þær og uppfræða um niðurstöður eftir því sem ástæða gefst til. Netfang: erling (hja) ni.is.