Pardussnigill í útrás

Pardussnigill, Limax maximus, fannst fyrst í Grafarvogi í Reykjavík síðsumars 1997. Ári síðar fannst hann enn á sama stað (Náttúrufræðingurinn 68 (1999), bls. 161). Það var því miður vanrækt að fylgjast með því hvernig honum reiddi af í kjölfarið og halda upplýsingum um það til haga. Á undanförnum árum hefur komið í ljós berlega að snigillinn hefur átt létt með að festa sig í sessi. Er nú svo komið að pardussnigill er orðinn áberandi á höfuðborgarsvæðinu allt frá Mosfellsbæ og suður til Hafnarfjarðar, einkum í nýrri byggðum austan og sunnan til á svæðinu.


Pardussnigill, Limax maximus, fundinn í Hveragerði 29. september 2008. Ljósm. Erling Ólafsson.

Nú í lok september fannst svo myndarlegur pardussnigill í Hveragerði, sá fyrsti utan höfuðborgarsvæðis. Þess má vænta að þar muni honum vegna vel á ylvolgri jörðinni og í gróskunni sem bærinn hefur upp á að bjóða. Þetta leiðir sannarlega hugann að spánarsnigli, Arion lusitanicus, og því hversu lengi Hvergerðingar muni bíða komu hans. Sennilega eru skilyrði óvíða jafnhagstæð spánarsnigli hér á landi og í Hveragerði, en þaðan mun hann kannski eiga nokkuð greiða leið í garða landsmanna.

Pardussnigill er auðþekktur enda risavaxinn. Þegar hann skríður verður fullvaxinn snigill gjarnan um 15 cm langur. Hann er breytilegur á lit. Flestir sniglarnir eru gráleitir með dekkri blettum á framhluta og langröndum á afturhluta (dæmi). Sumir hafa mun ljósari grunnlit og eru dökkir blettir og rákir einkar áberandi svo helst minnir kvikindið á stóru kattardýrin.

Eins og aðrir sniglar er pardussnigill átvagl sem leggst á skraut- og matjurtir í görðum. Hann sækir þó ekki síður í rotnandi plöntuleifar og sveppi og eru enn ekki þekkt dæmi hérlendis um alvarlegar skemmdir í görðum af hans völdum.