Gróðurskemmdir við orkuverið í Svartsengi

Við orkuver Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi eru hraun með mosaþembu svipaðri þeirri sem er vestan við Hellisheiðarvirkjun. Orkuverið í Svartsengi stendur á Illahrauni sem talið er hafa runnið árið 1226. Hraunið er vaxið mosaþembu, aðallega mosanum hraungambra og fléttugróðri. Í þembunni vaxa ýmsar háplöntutegundir, einkum krækilyng og grasvíðir. Orkuverið í Svartsengi hefur starfað frá því um 1975 og hefur orkuvinnsla þar farið vaxandi.

 

Séð yfir Illahraun að fjallinu Þorbirni, orkuverið er til hægri á myndinni. Þar sem hraunið er dekkst hefur mosi farið illa. Ljósm. Olga Kolbrún Vilmundardóttir 3. ágúst, 2006.

Sumarið 2006 fóru fram rannsóknir og kortlagning á gróðri í nágrenni orkuversins í Svartsengi vegna rannsókna sem standa yfir á gróðurfari og verndargildi háhitasvæða landsins (Ásrún Elmarsdóttir og Olga Kolbrún Vilmundardóttir 2006). Eftir skoðun á mosaskemmdum við Hellisheiðarvirkjun voru gögnin frá Svartsengi athuguð nánar til að kanna hvort þar kæmu fram einhverjar vísbendingar um gróðurskemmdir. Gróðurkortlagningin og ljósmyndir af svæðinu við Svartsengi 2006 þóttu gefa eindregið til kynna að mosaþemba í nágrenni orkuversins hefði látið stórlega á sjá.

 

 

 

 

 

 

Vettvangskönnun við Svartsengi

Hinn 17. september s.l. fóru starfsmenn frá Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun að orkuverinu í Svartsengi til að kanna ástand mosaþembunnar í hrauninu nánar. Gróður var skoðaður á tveimur sniðum út frá orkuverinu. Annað liggur til suðsuðvesturs í átt að vesturhlíðum fjallsins Þorbjörns. Hitt liggur til suðsuðausturs (sjá skýringamynd). Teknar voru ljósmyndir af gróðri í 200 m fjarlægð frá verinu og síðan á um 100 m bili út eftir sniðunum. Lengst var farið 900 m frá verinu á sniðinu norðvestan við Þorbjörn.

 

Innrauð SPOT5-gervitunglamynd frá 2007 af orkuverinu í Svartsengi og nágrenni. Dregin hefur verið lína umhverfis svæðið þar sem skemmdir virðast mestar (flatarmál u.þ.b. 1,05 km2). Rauður litur gefur til kynna gróskumikinn gróður. Teikning: Anette Th. Meier.

 

 

Eins og fram kemur bæði á gervitunglamyndum og þeim ljósmyndum sem hér fylgja er gróður mjög mikið skemmdur næst verinu og nálægt borteigum. Þar sem skemmdirnar eru mestar er mosinn hraungambri að mestu dauður og er yfirborð þar þakið dauðum mosa. Fléttur virðast ekki hafa orðið fyrir eins miklum áhrifum og sama er að segja um háplöntur sem einkum er að finna í lægðum. Skemmdirnar minnka eftir því sem lengra kemur frá orkuverinu en þær voru þó vel greinanlegar í 900 m fjarlægð norðvestan við Þorbjörn. Þar er gróðurþekja heilleg en skemmdir á mosa koma einkum fram ofarlega í hraunbollum þar sem mosinn mætir grjóti. Mosinn er þar dökkur og dauður á blettum.

 

 

 

Svartsengi Svartsengi
Dauður mosi í hrauni í 300 m fjarlægð frá orkuverinu, horft að verinu á vestursniði. Ljósm. Sigurður H. Magnússon 17. september 2008. Dauður mosi í 300 m fjarlægð frá orkuveri, horft frá verinu í átt að Þorbirni, á vestursniði. Háplöntur virðast ekki hafa numið land í miklum mæli þar sem mosinn hefur drepist. Ljósm. Sigurður H. Magnússon 17. september 2008.

 

Svartsengi Svartsengi
Mosaskemmdir í 500 m fjarlægð frá orkuveri, horft að verinu; vestursnið. Ljósm. Sigurður H. Magnússon 17. september 2008. Nærmynd af mosaskemmdum í 500 m fjarlægð frá orkuveri; vestursnið. Ljósm. Sigurður H. Magnússon 17. september 2008.

 

Svartsengi Svartsengi
Gróður í 900 m fjarlægð frá orkuveri, horft að verinu; vestursnið. Mosi er skemmdur í hraunbrúnum. Ljósm. Sigurður H. Magnússon 17. september 2008. Nærmynd af mosaskemmdum í 900 m fjarlægð frá orkuveri; vestursnið. Greinilegar skemmdir koma fram á hraunnibbum. Ljósm. Sigurður H. Magnússon 17. september 2008.

 

 

Hvað veldur þessum gróðurskemmdum?

Miðað við útbreiðslu gróðurskemmda má telja öruggt að þær stafi að langmestu leyti af loftmengun. Mosinn hraungambri er mjög viðkvæmur fyrir henni og mun viðkvæmari en flestar háplöntur. Krækilyng virðist t.d. þola þessa mengun nokkuð vel og er það í samræmi við niðurstöður rannsókna sem farið hafa fram á gróðri við álverið í Straumsvík.

Gróðurskemmdirnar í Svartsengi eru nokkuð áþekkar þeim sem fram hafa komið við Hellisheiðarvirkjun en þó miklu meiri.  Ekki er vitað til að menn hafi fyrr gefið þessum gróðurskemmdum við Svartsengi mikinn gaum. Þær eru það umfangsmikilar að nauðsynlegt er að kanna betur hversu útbreiddar þær eru og grafast fyrir um orsakir þeirra.