Náttúrufræðistofnun Íslands óskar samstarfsmönnum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári


Sóldögg, Drosera rotundifolia. Ljósm. Erling Ólafsson.

Sóldögg er fremur sjaldséð tegund hér á landi og sú eina af sóldaggarætt (Droseraceae) á Íslandi. Aðalbúsvæði hennar eru næringarlítil og frekar súr votlendi, gjarnan barnamosamýrar. Hún er aðeins um 2-5 cm á hæð og blómstrar hvítleitum blómum á blaðlausum stilk í júlí. Sóldögg nærist á smádýrum og eru laufblöð hennar þakin löngum, rauðum kirtilhárum með slímdropa á endanum. Smádýr sem setjast á glitrandi, rauð blöðin festast í slíminu og hreyfingin hvetur nærliggjandi hár til að leggjast yfir dýrið. Efni í slíminu leysa dýrið upp og með því móti fær plantan ýmis mikilvæg næringarefni sem erfitt er að nálgast ella, sökum lítils rótakerfis og næringarlítils jarðvegs. Áður voru slímdroparnir notaðir til lækninga og nú hafa rannsóknir sýnt fram á bólgueyðandi áhrif efna úr sóldögginni.