Ný sýn í gagnagrunna Náttúrufræðistofnunar

Á ársfundi Náttúrufræðistofnunar í apríl n.k. verður formlega opnuð Plöntuvefsjá, sem er fyrsta skrefið í þá átt að veita aðgang að gagnastöfnum stofnunarinnar á netinu. Lovísa Ásbjörnsdóttir er verkefnisstjóri Plöntuvefsjárinnar.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur það langtímamarkmið að veita aðgang að gagnasöfnun stofnunarinnar á netinu og er vefsjá mjög hentugt verkfæri til þess. Náttúrufræðistofnun hlaut styrk úr sjóði upplýsingasamfélagsins “Auðlindir í allra þágu 2004-2007” á árinu 2005 sem varð til þess að tækifæri gafst til að koma af stað þessu verkefni.

Yfir 600 þúsund færslur í gagnagrunnunum

Stafrænir gagnagrunnar Náttúrufræðistofnunar geyma nú um 660.000 færslur um flesta lífveruhópa landsins, ásamt tegundum steinda, bergs, steingervinga og jarðhita. Í gagnagrunnum Náttúrufræðistofnunar eru upplýsingar um náttúru landsins sem hvergi er annars staðar að finna.

Strax í upphafi þessa verkefnis var ljóst að gagnasöfn og upplýsingar stofnunarinnar um íslenskar plöntur myndu henta vel sem efni í fyrstu vefsjána, Plöntuvefsjá. Leyfi fékkst til að nýta texta og myndefni á heimasíðunni floraisland.is sem Hörður Kristinsson grasafræðingur Náttúrufræðistofnunar setti upp fyrir nokkrum árum og hefur viðhaldið til að þjónusta áhugafólk og fræðinga um flóru Íslands.

Upp úr áramótum 2005 var hafist handa við að koma upp vinnuáætlun þar sem annarsvegar var reynt að átta sig á upplýsinga- og notagildi plöntuvefsjárinnar fyrir ólíka notendahópa og hinsvegar hvernig viðmót og virkni myndi henta best fyrir slíka vefsjá. Vefsjáin byggir á náttúrfars- og reitaþekjum Náttúrufræðistofnunar Íslands, landfræðilegum grunnþekjum frá Landmælingum Íslands og náttúrverndaþekju frá Umhverfisstofnun.

Staðreyndasíða um hverja tegund

Plöntuvefsjáin gefur kost á leit eftir mismunandi leiðum og að kalla fram upplýsingar um útbreiðslu háplantna, mosa, fléttna og sveppa á Íslandi. Hverri tegund fylgir svokölluð staðreyndasíða sem gefur ítarlegar upplýsingar um sérhverja plöntutegund með plöntulýsingu, ljósmyndum, röðun tegundar innan flokkunarfræðinnar, upplýsingum um búsvæði og útbreiðslu og fróðleik um skaðsemi og nytjar plöntunnar. Í dag eru tiltækar í vefsjánni um 1000 staðreyndasíður fyrir háplöntur, mosa, fléttur og sveppi.

Næstu skref

Ráðgert er að opna Plöntuvefsjána formleg á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands í byrjun apríl n.k. Næstu vefsjár stofnunarinnar verða byggðar á þróun, þekkingu og reynslu sem fékkst með uppbyggingu þessarar vefsjár og eru áform um opnun Fuglavefsjár síðar á þessu ári.

Fræðsluerindi Náttúrufræðistofnunar eru opin öllum.