Rjúpa

Rjúpan (Lagopus muta) er hænsnafugl (Galliformes) af undirætt orrafugla (Tetraoninae). Varplönd hennar eru á arktískum svæðum hringinn í kringum pólinn. Reyndar finnast í fjöllum sunnar í álfum einangraðir rjúpnastofnar, strandaglópar frá ísöld, svo er til dæmis í Alpafjöllum og Pírennafjöllum í Evrópu og háfjöllum eyjarinnar Honshu í Japan svo einhver svæði séu nefnd. Út frá skyldleika hefur rjúpum verið skipt í tvo meginhópa, annars vegar er svokallaður rupestris-hópur sem byggir Norður-Ameríku og Síberíu og hins vegar mutus-hópurinn sem byggir Evrópu. Íslenska rjúpan tilheyrir ruspestris-hópnum. Það voru rjúpur frá Grænlandi sem námu hér land við lok ísaldar fyrir um 10.000 árum síðan. Þessi gluggi til vesturs er enn opinn og grænlenskar rjúpur finnast hér endrum og eins. Rjúpan er annars útbreiddur og algengur varpfugl á Íslandi. Annað nafn hennar er fjallrjúpa, sem stundum er notað til aðgreiningar frá bergrjúpu (Lagopus leucurus) og dalrjúpu (Lagopus lagopus). Hún er staðfugl á Íslandi en ferðast innanlands haust og vor og oft landshorna á milli.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |