Toppagullmölur (Phyllonorycter emberizaepenellus)

Útbreiðsla

Víða í Evrópu norður til sunnanverðrar Skandinavíu, austur til Kasakstan, austanverð Norður-Ameríka.

Ísland: Kópavogur.

Lífshættir

Tegundin finnst þar sem fæðuplönturnar vaxa einkum á skuggsælum stöðum. Þekktar eru plöntur af geitblaðsætt (Caprifoliaceae) og eru dúntoppur (Lonicera xylosteum) og skógartoppur (L. periclymenum) sérstaklega tilnefndir. Snjóber (Symphoricarpus albus) finnst einnig skráð sem fæðuplanta. Toppagullmölur er nýuppgötvuð tegund hérlendis og hefur fullþroska fiðrildum verið safnað af surtartoppi (L. nigra) og glótoppi (L. involucrata). Annars á eftir að koma í ljós hvaða tegundir verða helst fyrir valinu. Eggjum er orpið á neðra borð laufblaða og skríður nýklakin lirfa inn í laufblaðið. Fyrst myndast þar lítill ljós blettur. Tekur laufblaðið síðan að verpast og ummyndast og spinnast saman af spunaþráðum. Á efra borðinu má sjá flekki þar sem lirfan hefur nagað blaðgrænuna undir. Karldýr eru afar fáséð og fjölgar fiðrildunum því án aðkomu þeirra. Kvendýrin þurfa ekki að makast. Flugtími fiðrildanna er frá miðjum maí fram í byrjun júlí.

Almennt

Toppagullmölur er nýr landnemi hér á landi. Hann uppgötvaðist fyrst í júní 2018 í trjásafninu Meltungu innst Fossvogsdal. Þar sat hann á runnum surtartopps. Aftur var hugað að honum og fannst þá líka á blátoppi sem óx á sama stað. Toppagullmölur er sennilega afar gott dæmi um smádýr sem borist hefur til landsins með innfluttum plöntum úr ræktun erlendis. Hann er sérhæfur á fæðuplöntur og er því útilokað að hann dreifist áfram út í íslenska náttúru. Hins vegar er hugsanlegt að hann geti látið til sín taka í garðræktinni.

Toppagullmölur (4,5 mm) er eitt smávaxnasta fiðrildið sem finnst hér á landi með 7-8 mm vænghaf. Þrátt fyrir smæðina eru fiðrildin afar fögur. Framvængir eru gulbrúnir, nokkuð gljáandi með hvítum og mjórri dökkum þverbeltum, vængendar yrjóttir með ljósari gagnstæðum flekkjum. Framrönd er langkögruð utan til og afturröndin og rís kögrið upp aftan til á aðfelldum hvelfdum vængjunum. Afturvængir eru mjóir, allaga, með löngu kögri allt um kring. Frambolur samlitur framvængjum, gylltur og hvítur, en afturbolur einlitur gylltur. Áberandi hreisturbrúskar á höfði, fálmarar langir og mjóir.

Toppagullmölur líkist að nokkru leyti birkispunamöl (Argyresthia goedartella) sem einnig er nýr landnemi hér, nokkrum árum eldri. Litur þeirra er áþekkur þó mynstrið sé frábrugðið og fiðrildið mun smávaxnara.

Útbreiðslukort

Heimildir

Bengtsson, B.Å. & R. Johansson 2011. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Fjärilar: Bronsmalar–rullvingemalar. Lepidoptera: Roeslerstammiidae–Lyonetiidae. ArtDatabanken, SLU, Uppsala.

Höfundur

Erling Ólafsson 8. júní 2018.

Biota

Tegund (Species)
Toppagullmölur (Phyllonorycter emberizaepenellus)