Birkiglitmölur (Argyresthia goedartella)

Útbreiðsla

Mestöll Evrópa að undanskildum nyrstu héruðum Skandinavíu, miðbik Norður-Ameríku frá vestri til austurs.

Ísland: Reykjavík, Kollafjörður.

Lífshættir

Tegundin finnst í laufskógum með birki (Betula) og elri (Alnus) sem eru fæðuplönturnar, einnig í skrúðgörðum og húsagörðum þar sem þessi tré eru ræktuð. Lirfurnar vaxa upp framan af sumri, fyrst í brumum trjánna og síðan í karlreklunum sem geta spillst af þeirra völdum. Fullþroska lirfur síga á spunaþráðum til jarðar og púpa sig þar eða undir berki trjánna, oft margar saman. Flugtími fiðrildanna er frá miðjum júlí og út ágúst hér á landi. Eggin brúa veturinn.

Almennt

Birkiglitmölur er hér nýr landnemi sem að öllum líkindum hefur borist með innfluttum gróðurvörum. Hann fannst fyrst árið 2011 í trjárækt Skógræktar ríkisins að Mógilsá í Kollafirði. Þar hefur honum fjölgað með hverju árinu og fór svo að finnast í Reykjavík árið 2015, austan til í borginni, einnig Fossvogi og Norðurmýri. Ekki er gott að segja hvort hér verði úr skaðvaldur á birkireklum og hvort tegundin nái að dreifa sér út fyrir byggð í birkiskógana. Tíminn mun leiða það í ljós.

Birkiglitmölur (6 mm) er smávaxið fiðrildi með 9-10 mm vænghaf. Grunnlitur frambols og framvængja er sindrandi gylltur og liggja þrjú hvít belti þvert yfir aðfellda hvelfda vængina, það aftasta skeifulaga. Afturjaðar framvængja eru langkögraðir. Frekar mjóir odddregnir afturvængir eru langkögraðir allan hringinn einkum á afturjaðri.

Útbreiðslukort

Heimildir

Bengtsson, B.Å. & R. Johansson 2011. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Fjärilar: Bronsmalar–rullvingemalar. Lepidoptera: Roeslerstammiidae–Lyonetiidae. ArtDatabanken, SLU, Uppsala.

Global Biodiversity Information Facility (GBIF). Argyresthia goedartella. (https://www.gbif.org/species/1830125)

Höfundur

Erling Ólafsson 8. júní 2018.

Biota

Tegund (Species)
Birkiglitmölur (Argyresthia goedartella)