Stefnur

 • Starfsmannastefna

  Starfsmannastefna

  Markmiðið með starfsmannastefnunni er að Náttúrufræðistofnun hafi alltaf á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem geta tryggt nauðsynlegt frumkvæði í störfum, veitt góða þjónustu og brugðist við síbreytilegum þörfum stofnunarinnar. Starfsmannastefnan á að tryggja starfsmönnum ákveðin starfsskilyrði og möguleika á að vaxa og dafna í starfi. Leitast skal við að skapa starfsmönnum aðstæður til að samræma starf og fjölskyldulíf.

  Leiðarljós:

  • Virðing fyrir samstarfsmönnum
  • Samvinna og sveigjanleiki
  • Jafnræði
  • Þekking og frumkvæði
  • Þjónustulund

  Í þessu felst að stjórnendur stofnunarinnar:

  • Virði alla starfsmenn sína og viðhorf þeirra
  • Virki starfsmenn til að móta og bæta starfsemina
  • Starfi í anda jafnræðis og jafnréttis
  • Stuðli að því að starfsmenn geti aukið þekkingu sína og starfshæfni
  • Leggi áherslu á gæði starfs
  • Upplýsi starfsmenn um hlutverk þeirra og ábyrgð

  Þetta gerir þær kröfur til starfsmanna að þeir:

  • Virði samstarfsmenn sína
  • Séu viðbúnir þróun og breytingum og taki þátt í þeim
  • Viðhaldi þekkingu sinni og auki við hana
  • Sinni starfi sínu af trúmennsku og metnaði
  • Sýni ábyrgð

  1 Ráðningar- og starfsréttindi

  1.1 Laus störf
  Náttúrufræðistofnun skal auglýsa laus störf í samræmi við reglur ríkisins og gæta skal jafnræðis í ráðningarferlinu. Ráðning á að byggjast á hæfni umsækjanda til að inna auglýst starf af hendi. Gengið skal frá ráðningu með formlegum hætti.

  1.2 Jafnrétti
  Þess skal gætt að gera ekki upp á milli starfsmanna í kjörum vegna kynferðis, kynþáttar, stjórnmála- eða trúarskoðana eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum. Stjórnendum ber að stuðla að markvissri aðlögun erlendra starfsmanna á vinnustað. Jafnræðisreglan skal ávallt höfð í huga og gildir hún m.a. þegar um er að ræða laun, launatengd fríðindi og hvers konar þóknun fyrir vinnu.  Sama á við þegar teknar eru ákvarðanir um ráðningu í störf, stöðubreytingar, uppsögn starfs, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði.  Náttúrufræðistofnun hefur sett sér jafnréttisstefnu sem hún vinnur eftir.

  1.3 Starfslýsingar
  Stofnunin gerir starfslýsingar fyrir öll störf innan stofnunarinnar.  Starfslýsingar geta tekið breytingum samhliða þróun í starfi. Í starfslýsingum skal lýsa helstu verkefnum og ábyrgðarsviðum auk þess sem getið er um staðgengla þar sem það á við. Starfslýsingar skulu endurskoðaðar reglulega.

  1.4 Starfslok
  Starfsmenn skulu láta af störfum eigi síðar en í lok þess mánaðar sem þeir verða 70 ára.

  Fyrir uppsögn starfsmanns þurfa að vera málefnalegar ástæður. Starfsmaður á rétt á skrif­­legum rökstuðningi fyrir ákvörðun um uppsögn, óski hann þess. Sé um að ræða meintar ávirðingar í starfi, ber yfirmanni að veita áminningu eftir að starfsmaður hefur fengið tækifæri til að tjá sig um málið, nema ávirðingar séu svo alvarlegar að það réttlæti fyrirvaralausa uppsögn. Gefa skal starfsmanni kost á starfslokasamtali við stjórnanda.

  2 Símenntun, starfshæfni og starfsþróun starfsmanna

  2.1 Símenntun
  Náttúrufræðistofnun beitir sér fyrir því að starfsmenn eigi kost á símenntun innan sem utan stofnunar til að auka þekkingu sína og faglega hæfni sem nýtist í starfi. Það er jafnt á ábyrgð starfsmanns sem yfirmanns að viðhalda og bæta fagþekkingu og aðra sérþekkingu sem nauðsynleg er í starfi. Viðleitni starfsmanna til að auka þannig hæfni sína er liður í starfsöryggi þeirra.

  2.2 Starfsmannasamtöl
  Náttúrufræðistofnun vill að starfsmenn njóti hæfileika sinna í starfi. Þeir eiga rétt á starfsmannasamtölum a.m.k. einu sinni á ári til að tryggja að kröfur og væntingar yfirmanna og starfsmanna séu ljósar og að samráð sé haft um umbætur þar sem þeirra er þörf. Í starfsmannasamtölum er rætt um fræðsluþörf og leiðir til úrbóta. Í samtalinu á starfsmaður að geta rætt líðan sína á vinnustað, frammistöðu og óskir um starfsþróun.

  2.3 Starfsþróun
  Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að þeim kröfum, sem starfið útheimtir, svo sem vegna tæknilegrar og faglegrar þróunar og vera reiðubúnir að þjálfa sig til nýrra og breyttra verkefna. Starfsþróun er á ábyrgð starfsmanns og yfirmanns sem felst meðal annars í símenntun, samvinnu eða að takast á við ný verkefni.

  3 Vinnuumhverfi

  3.1 Samskipti
  Náttúrufræðistofnun vill stuðla að góðum starfsanda og að traust og jafnræði ríki í samskiptum milli starfsmanna sinna og milli starfsmanna og yfirmanna.

  3.2 Aðgerðir ef samskiptareglur eru brotnar
  Starfsmaður, sem með orðum, látbragði eða atferli, ógnar, truflar eða ögrar öðrum á vinnustað, leggur starfsmann í einelti eða sýnir honum kynferðislega áreitni, telst brjóta grundvallarreglur samskipta á vinnustað. Slík hegðun getur leitt til áminningar og uppsagnar.

  3.3 Vinnuvernd og öryggismál
  Náttúrufræðistofnun leitast við að tryggja öllum starfsmönnum sínum gott starfsumhverfi sem fullnægir kröfum um öryggi á vinnustað.

  Stjórnendum ber að stuðla að heilbrigðu vinnuumhverfi. Það eru gagnkvæmir hagsmunir Náttúrufræðistofnunar og starfsmanna hennar að vellíðan og heilbrigði starfsmanna sé haft í fyrirrúmi. Starfsmenn bera ábyrgð á að leggja rækt við eigin heilsu. Vinnuumhverfi skal vera eins hættulaust og kostur er, en jafnframt ber starfsmönnum að fylgja þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra, um öryggi og gætni í starfi. Þar sem meðferð hættulegra efna er nauðsynleg skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt og skýrt kveðið á um hvernig brugðist skuli við óhöppum og hættu.

  Ávallt skal skipaður sérstakur öryggistrúnaðarmaður starfsmanna sem gætir þess að skýrt sé kveðið á um hvernig bregðast skuli við óhöppum og hættuástandi.  Öryggistrúnaðarmaður á jafnframt að koma ábendingum starfsmanna áleiðis til yfirstjórnar um það sem betur má fara í öryggismálum.

  3.4 Vinnustaður án vímuefna

  Náttúrufræðistofnun er reyklaus vinnustaður. Notkun vímuefna starfsmanna við störf er óheimil.

  3.5 Samræming vinnu og einkalífs
  Náttúrufræðistofnun skapar starfsmönnum sínum aðstæður til að samræma starf og einkalíf eins og kostur er. Þeim skal gert kleift að minnka við sig vinnu tímabundið eða stunda hlutastörf vegna fjölskylduábyrgðar. Stjórnendur skulu hvetja væntanlega foreldra til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Jafnframt skulu þeir hvetja karla til að vera heima hjá veikum börnum til jafns á við konur.

  3.6 Sveigjanlegur vinnutími
  Stofnunin leitast við að koma til móts við óskir starfsmanna um sveigjanlegan vinnutíma þar sem slíku verður við komið.  Vinnutími starfsmanna Náttúrufræðistofnunar er átta tímar á dag ef miðað er við fullt starf, frá mánudegi til föstudags.  Vinnutíminn er sveigjanlegur að því marki að starfsmenn geta mætt milli kl. 7:30 og 9 á morgnana. Auk þess geta starfsmenn leitað eftir samþykki forstöðumanna um meiri sveigjanleika, bæði hvað varðar vinnutíma og þann stað sem starfið er leyst af hendi á, og er þá forstöðumanna að meta hvort slíkt er unnt og í hve miklum mæli. Samþykki forstjóri tillögu forstöðumanns skal gengið frá samningi þar að lútandi við starfsmann með formlegum hætti (skriflega).

  3.7 Veikindi
  Veikindi geta hent alla og reynt er að koma til móts við starfsfólk í veikindum þess, veikindum barna eða alvarlegum veikindum maka.  Á móti kemur að starfsfólki ber að skila vottorði ef um veikindi umfram þrjá vinnudaga er að ræða og eins ef næsti yfirmaður óskar eftir því.

  4 Launamál og launaákvarðanir

  4.1 Launastefna
  Markmið Náttúrufræðistofnunar er að hæfir starfsmenn veljist til starfa og að þeir uni hag sínum og hafi metnað til að takast á við þau verkefni sem bíða úrlausnar. Launastefnu stofnunarinnar er ætlað að tryggja að starfsmenn hennar njóti a.m.k. sambærilegra kjara og tíðkast hjá stofnunum með líka starfsemi eins og menntun og hæfni starfsmanna kveður á um. Laun geta verið árangurstengd ef samkomulag næst um slíkt milli starfsmanna og stofnunar. Að öðru leyti ráðast laun af kjarasamningum og fjárhagslegu svigrúmi stofnunarinnar.

  Forstjóri og trúnaðarmenn fylgjast með launaþróun.

  4.2 Launaákvarðanir
  Launaákvarðanir skulu vera gagnsæjar og málefnalegar. Mikilvægt er að laun taki mið af þeim kröfum sem starf gerir til starfsmanns með tilliti til ábyrgðar, álags og sérhæfni. Einnig er mikilvægt að laun taki mið af hæfni og frammistöðu starfsmanna og hvetji starfsmenn til að leggja sig fram í starfi.

  5 Ábyrgð og skyldur stjórnenda og annarra starfsmanna

  5.1 Markmiðssetning
  Stjórnendur og starfsfólk bera sameiginlega ábyrgð á að langtímamarkmiðum Náttúrufræðistofnunar sé náð. Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar vinnur eftir markmiðum sem stjórnendur stofnunarinnar hafa sett fram og hafa verið kynnt. Forstjóri Náttúrufræði­stofnunar setur fram markmið sem hann hefur unnið með forstöðumönnum í samráði við fagsviðsstjóra og aðra starfsmenn. Forstöðumenn gera áætlanir um leiðir til að ná þessum markmiðum, tímasetja og áætla kostnað í samráði við þá starfsmenn sem bera ábyrgð á viðkomandi málaflokkum. Þegar unnið er að stóru verkefni sem gengur þvert á deildir er skipaður verkefnisstjóri sem stýrir verkinu í samráði við viðkomandi forstöðumenn.

  5.2 Skyldurækni
  Starfsmenn eiga að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi. Þeir eiga að vinna með öðrum starfsmönnum af heilindum að markmiðum sem starfseminni eru sett. Þeim ber að virða trúnað um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Þessi þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum. Starfsmenn eiga að gæta þess að framkoma þeirra og athafnir samrýmist því starfi sem þeir gegna. Starfsmenn eiga ekki að þiggja greiðslur eða annan viðurgjörning frá viðskiptamönnum ef túlka má það sem þóknun fyrir óeðlilegan greiða til að liðka fyrir upplýsingum.

  Áður en starfsmaður hyggst, samhliða starfi sínu, taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila ber honum að skýra forstjóra frá því. Forstjóri metur í samráði við starfsmann hvort fyrirhugað starf er ósamrýmanlegt starfi hans við stofnunina.

  6 Eftirlit með framkvæmd

  Starfsmannastjóri hefur umsjón með starfsmannamálum stofnunarinnar og gætir þess að samræmis sé gætt og að heildarhagsmunir ráði ákvörðunum í starfsmannamálum.

 • Jafnréttisstefna

  Jafnréttisstefna

  Markmið

  Jafnréttisáætlun þessi er sett í þeim tilgangi að tryggja jafnrétti kynjanna í samræmi við ákvæði laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í henni er kveðið á um þau réttindi sem tilgreind eru í 19.-22. gr. laganna.

  Laus störf eru óháð kyni

  Öll laus störf skulu standa jafnt konum sem körlum til boða og teljast því hvorki kvenna- né karlastörf. Þegar ráðið er í ný störf skal m.a. tekið tillit til kynjahlutfalls þannig að ekki halli á annað kynið.

  Launajafnrétti

  Konur og karlar skulu fá sömu laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, samkvæmt skilyrði 19. gr. jafnréttislaga. Þau skulu einnig njóta sömu þóknana, beinna og óbeinna, hvort heldur er með hlunnindum eða öðrum hætti. Með sömu launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Komi í ljós launamunur á jafn verðmætum og sambærilegum störfum skal hann leiðréttur ef ekki er hægt að rökstyðja hann á málefnalegum grundvelli gildandi stofnanasamninga.

  Endurmenntun, símenntun og starfsþjálfun

  Konur og karlar skulu njóta sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfstengdrar þjálfunar til þess að auka þekkingu og hæfni, m.a. vegna faglegrar þróunar og nýjunga í starfi.

  Samræming fjölskyldulífs og vinnu

  Starfsfólki býðst að skila vinnuframlagi með sveigjanlegum vinnutíma samkvæmt gildandi viðmiðum og reglum. Skipulagning vinnu og vinnutíma þarf að vera með þeim hætti að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og hagsmuna stofnunarinnar. Starfsmenn skulu eiga kost á hlutastörfum eða annarri hagræðingu þar sem því verður við komið. Tekið skal tillit til mismunandi aðstæðna, s.s. umönnunar barna, foreldra eða annarra náinna skyldmenna. Stofnunin hvetur verðandi feður og mæður til að nýta sér fæðingarorlof.

  Kynferðisleg og kynbundin áreitni og einelti

  Kynferðisleg eða kynbundin áreitni, einelti eða önnur ótilhlýðileg háttsemi er ekki liðin hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í Starfsmannahandbók eru leiðbeiningar fyrir starfsfólk og stjórnendur ef bregðast þarf við vegna þessara mála.

  Kynjasamþætting

  Náttúrufræðistofnun Íslands leitast við að hafa sjónarmið um jafnrétti og jafna stöðu kynjanna í hávegum í allri starfsemi sinni, þ. á m. við hvers kyns stefnumótun og áætlanagerð.

 • Samgöngustefna

  Samgöngustefna

  Náttúrufræðistofnun vill leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfi og heilsu starfsfólks stofnunarinnar sem og allra landsmanna. Markmið samgöngustefnu Náttúrufræðistofnunar er að stuðla að því að starfsfólk noti vistvænan og hagkvæman ferðamáta.

  Náttúrufræðistofnun vill sýna gott fordæmi og efla vitund fólks um vistvænar samgöngur.

  Leiðir

  • Stofnunin hvetur starfsfólk til að nota almenningssamgöngur til og frá vinnu. Í þeim tilgangi kaupir stofnunin strætisvagnakort fyrir það starfsfólk sem að jafnaði notar eða ákveður að nota strætisvagna til að ferðast í og úr vinnu.
  • Stofnunin hvetur starfsfólk til að ganga eða hjóla til og frá vinnu. Starfsfólk sem að jafnaði notar slíkan vistvænan samgöngumáta fær greiddan útlagðan kostnað skv. reikningi, t.d. vegna hlífðarfatnaðar, þó að hámarki þá upphæð sem nemur andvirði árskorts í strætisvagna.
  • Stofnunin gerir samgöngusamning við þá starfsmenn sem nota vistvænan samgöngumáta.
  • Stofnunin mun kappkosta að tryggja góða aðstöðu á vinnustað fyrir þá sem stunda vistvænar samgöngur.
  • Fyrir það starfsfólk sem að jafnaði notar vistvænan samgöngumáta greiðir stofnunin leigubílakostnað í neyðartilvikum á vinnutíma, t.d. vegna veikinda barna.
  • Starfsfólk notar bíla í eigu stofnunarinnar, strætisvagna eða leigubíla til að fara á fundi ef það hentar. Stofnunin kaupir staka miða í strætó fyrir ferðir á vinnutíma.
  • Starfsfólk skal samnýta ferðir á vinnutíma eins og kostur er.
  • Þegar pantaðir eru leigu- eða bílaleigubílar skal óskað eftir vistvænum bílum.
  • Stofnunin hvetur starfsfólk til að fjölga síma- og fjarfundum eins og kostur er.
 • Umhverfisstefna

  Umhverfisstefna

  Náttúrufræðistofnun Íslands stefnir að því að verða vistvænn vinnustaður í fremstu röð. Til þess að ná því markmiði hefur stofnunin mótað sér umhverfisstefnu. Í henni er lögð áhersla á að sjónarmið umhverfisverndar verði höfð að leiðarljósi í rekstri og stjórnun stofnunarinnar. Mikilvægt er að allir starfsmenn séu virkir við framkvæmd umhverfisstefnunnar.

  Markmið umhverfisstefnu

  • Minni orkunotkun
  • Umhverfisvæn viðskipti
  • Minna sorp – auka hlut endurnýtingar, endurvinnslu og skila á spilliefnum
  • Vistvænar samgöngur, fundir og flutningar
  • Sérstök gát á eiturefnum sem stofnunin notar
  • Bætt vinnuumhverfi

  Leiðir

  Leiðir til að ná markmiðum umhverfisstefnunnar felast m.a. í:

  a. Minni orkunotkun

  Í lok hvers starfsdags verði gengið úr skugga um að slökkt hafi verið á öllum ljósritunar­vélum, prenturum og öðrum tækjum. Slökkt sé á ljósum yfir sumartímann og í herbergjum sem ekki er verið að vinna í o.s.frv.

  b. Umhverfisvænum innkaupum

  Náttúrufræðistofnun stundar umhverfisvæn innkaup að því marki sem slíkt er gerlegt með hliðsjón af gæðum og kostnaði. Í þeim tilgangi leitast stofnunin við að:

  • Kaupa ekki vörur sem unnar eru úr efniviði sjaldgæfra tegunda (t.d. viður)
  • Forðast kaup á vörum frá fyrirtækjum sem nota börn sem vinnuafl við framleiðslu sína
  • Forðast notkun á vörum sem innihalda lífræn leysiefni, sem eru skaðleg umhverfi og heilsu manna
  • Kaupa orkusparandi tæki og ljósabúnað

  c. Minna sorpi

  • Draga úr pappírsnotkun, t.d. að ljósritað verði báðum megin á pappír eins og hægt er og að pappír sem eingöngu er búið að prenta á öðrum megin verði notaður aftur
  • Draga úr notkun hreingerningarefna eins og kostur er
  • Safna öllum endurvinnanlegum pappír og senda í endurvinnslu
  • Safna bylgjupappa og senda í endurvinnslu
  • Safna ónýtum rafhlöðum og senda í spilliefnamóttöku
  • Safna öllum dósum og endurvinnanlegum drykkjarumbúðum (plastflöskum, gleri og mjólkurfernum) sem til falla á stofnuninni og senda til endurvinnslu.

  d. Vistvænum samgöngum, fundum og flutningum

  • Stuðla að vistvænum samgöngum t.d. með notkun strætisvagna og samnýtingu bíla
  • Hvetja starfsmenn til að ganga, hjóla og/eða taka strætisvagna til og frá vinnu
  • Fjölga símafundum og auka notkun fjarfundabúnaðar í starfsemi stofnunarinnar
  • Hvetja til sparaksturs

  Árangursmat – umhverfisvísar

  Árangur þarf að vera sýnilegur og metanlegur í formi umhverfisvísa. Mögulegir umhverfisvísar eru eftirfarandi:

  • Heildarnotkun á rafmagni NÍ í kwh, notkun kwh/starfsmann eða setri
  • Innkaup á umhverfismerktri vöru, innkaup vöru sem ekki inniheldur leysiefni
  • Mat á heildarnotkun ýmissa efna og skrifstofutækja
  • Kannanir á samnýtingu, hvatning til að ganga eða hjóla í vinnuna

  Umhverfisnefnd

  Innan Náttúrufræðistofnunar starfar umhverfisnefnd og í henni situr einn fulltrúi tilnefndur af forstjóra og tveir fulltrúar tilnefndir af starfsmannafélögum, sinn frá hvoru setri. Hlutverk nefndarinnar er að sjá til þess að umhverfisstefnu stofnunarinnar verði framfylgt og að vera ráðgjafi starfsmanna og stjórnenda í þessum málum. Umhverfisnefnd skal hafa yfirsýn yfir lög og reglur síns málaflokks og fylgjast með og ýta undir bætta skipan mála. Umhverfisnefnd skal tryggja að umhverfisstefna stofnunarinnar verði endurskoðuð reglulega og kynnt nýjum starfsmönnum þegar þeir hefja störf. Umhverfisnefnd skal halda a.m.k. tvo formlega fundi á ári hverju, skrifa fundargerð og skila í ársskýrslu yfirliti um hvernig til hafi tekist í málaflokknum á árinu. Þegar umhverfisnefnd hefur verið sett á laggirnar skal hún m.a. hefjast handa við að:

  • Meta stöðu umhverfismála innan stofnunarinnar
  • Gera áætlun um aðgerðir og markmið til umhverfisbóta í starfsemi stofnunarinnar
  • Sinna stöðugu eftirliti og endurmati á umhverfismálum stofnunarinnar og tryggja að settum markmiðum verði náð (gátlisti)
  • Kynna starfsmönnum nýjungar
  • Koma með tillögur að bættri umhverfisstefnu
 • Upplýsingastefna

  Upplýsingastefna

  Upplýsingastefna Náttúrufræðistofnunar er mikilvægur hluti af almennri stefnumótun stofnunarinnar.

  1 Meginmarkmið upplýsingastefnu Náttúrufræðistofnunar

  Út á við:

  • Almenningur og fjölmiðlar eigi þess kost að fylgjast með starfsemi Náttúrufræðistofnunar og að traust ríki í samskiptum þeirra
  • Miðla fróðleik um fræðasvið stofnunarinnar

  Inn á við:

  • Starfsmenn hafi greiðan aðgang að upplýsingum innan stofnunarinnar og séu meðvitaðir um helstu verkefni hennar
  • Ábyrgð og verkaskipting í upplýsingamálum sé starfsmönnum ljós
  • Auðvelda samskipti milli starfsmanna og hvetja til umræðu og skoðanaskipta

  Forstöðumaður upplýsingadeildar ber ábyrgð gagnvart forstjóra á framkvæmd stefnunnar út á við. Aðrir forstöðumenn bera ábyrgð á framkvæmd stefnunnar, hver innan sinnar deildar. Öllum starfsmönnum stofnunarinnar ber í daglegum störfum sínum að veita sem gleggstar upplýsingar um þjónustu og hlutverk hennar.

  2 Framkvæmd

  2.1 Ytra upplýsingaflæði
  Með ytra upplýsingaflæði er átt við fræðslu og upplýsingar sem beinast að almenningi, stjórnvöldum, mennta- og fræðasamfélaginu. Helstu leiðir eru:

  • Vefsíða Náttúrufræðistofnunar
  • Útgefið efni svo sem Fjölrit Náttúrufræðistofnunar, skýrslur, kort og bæklingar
  • Umsagnir um frumvörp og ýmis stjórnsýsluerindi
  • Fræðsluerindi, m.a. Hrafnaþing
  • Fréttatilkynningar og viðtöl við fjölmiðla

  2.2 Innra upplýsingaflæði
  Með innra upplýsingaflæði er átt við fræðslu og upplýsingar sem beinast að starfsmönnum stofnunarinnar.  Helstu leiðir eru:

  • Starfsmannafundir og miðlun fundargerða
  • Innri vefur stofnunarinnar
  • Fréttabréf – NÍ-fréttir
  • Námskeið sem stofnunin heldur fyrir starfsfólk sitt

  3 Upplýsingagjöf við sérstakar aðstæður

  Ef upp koma sérstakar aðstæður sem þykja fréttnæmar skal gera forstöðumanni upplýsingadeildar viðvart, sem mun ákveða og samræma upplýsingagjöf til fjölmiðla.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

 • Fela
 • |