Tjarnastararflóavist

L8.13 Tjarnastararflóavist

Eunis-flokkun: D2.332 Basicline bottle sedge quaking mires.

Lýsing

Lítið hallandi, deigir til mjög blautir flóar á flatlendi og í kvosum, vaxnir tjarnastör, vetrarkvíðastör og fleiri votlendistegundum. Vatn stendur hátt og land fer undir vatn í leysingum og flóðum, lítil hreyfing er á vatni að jafnaði en land allfrjósamt. Vistgerðin er vel gróin og gróður hávaxinn, æðplöntur eru ríkjandi en mosi er mikill í sverði, fléttur finnast vart sökum bleytu.

Plöntur

Vistgerðin er fremur fátæk af tegundum æðplantna, fremur rík af mosum, mjög fátæk af fléttum. Ríkjandi tegundir æðplantna eru tjarnastör (Carex rostrata), vetrarkvíðastör (C. chordorrhiza) og klófífa (Eriophorum angustifolium). Algengastir mosa eru mýrabrandur (Campylium stellatum), mýrakrækja (Scorpidium revolvens), tjarnakrækja (S. scorpioides) og móasigð (Sanionia uncinata) en af fléttum finnast helst hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula) og mundagrös (Cetrariella delisei) í þúfum.

Jarðvegur

Lífræn jörð er einráð, jarðvegur er mjög þykkur, fremur ríkur af kolefni og sýrustig mjög lágt.

Fuglar

Ríkulegt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru lóuþræll (Calidris alpina), óðinshani (Phalaropus lobatus) og álft (Cygnus cygnus) á hálendi, og auk þess hrossagaukur (Gallinago gallinago), jaðrakan (Limosa limosa), stelkur (Tringa totanus) og spói (Numenius phaeopus) á láglendi. Mikilvægt beitiland heiðagæsa (Anser barachyrhynchus) á hálendi.

Líkar vistgerðir

Rimamýravist, runnamýravist á láglendi og brokflóavist.

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum, á láglendi og hálendi, mest á blágrýtissvæðum landsins á Vesturlandi og Austurlandi.

Verndargildi

Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.