Leirur

F2.3 Leirur

EUNIS-flokkun: A2.3 Littoral mud.

Lýsing

Leirur eru ein gerð setfjara. Þær eru yfirleitt mjög flatar og breiðar spildur sem virðast oft snauðar af lífi við fyrstu sýn. Breytilegt er hvað leirinn nær hátt upp í fjöruna; stundum er hann bundinn við neðri hluta fjörunnar og þá er efri hlutinn oft grýttur. Á öðrum stöðum nær leirinn hærra upp, allt að efstu flóðamörkum. Leiran samanstendur af fínkornóttu seti, eða blöndu af misgrófum sandi og eðju. Oft skiptast á misfínkornóttir flákar innan stærri svæða. Fjörubeðurinn heldur vel í sér raka þótt lágsjávað sé og þeim mun betur eftir því sem hann er fínkornóttari. Hæðarsvið, halli fjörunnar og rakaheldni ræður miklu um staðbundna lárétta dreifingu lífvera. Í efsta og súrefnisríku yfirborðslagi leira er lífríkið svipað því sem er á sjávarbotninum næst fjörunni. Í mjög fínkornóttum og þéttum leir er súrefnisríka lagið örþunnt, en undir er súrefnissnauður svartur leir, sem lyktar af brennisteinsvetni. Þar sem leirinn er lausari í sér og súrefni nær lengra niður í efri lög leirunnar, er jafnan mikið af örsmáum dýrum en stórvaxnir þörungar eru óalgengir þar sem lítið er um festu fyrir gróður (Agnar Ingólfsson 2006, Þorleifur Eiríksson o.fl. 2008). Lífsskilyrði á leirum geta gjörbreyst ef breyting verður á vatnsskiptum en slíkt getur gerst bæði vegna athafna manna eða af náttúrulegum orsökum (Agnar Ingólfsson 1990, 2010). Seltan er að meðaltali lægri en í strandsjónum en getur verið mjög breytileg eftir aðskildum leirusvæðum og innan sömu leiru. Seltan verður hæst þegar hásjávað er. Leirur myndast yfirleitt þar sem gott skjól er fyrir úthafsöldunni, til að mynda inni í fjörðum, í lónum og við árósa þar sem framburður af fíngerðu seti er nægur.

Leirur eru af nokkrum gerðum en oft eru engin skörp skil á milli þeirra, frekar en annarra vistgerða í fjörum. Helstu leirugerðirnar eru sandmaðksleirur, skeraleirur, kræklingaleirur, gulþörungaleirur og marhálmsgræður.

Fjörubeður

Sandur, leir.

Fuglar

Leirur eru meðal mikilvægustu fæðusvæða vaðfugla hér á landi.

Líkar vistgerðir

Grýttur sandleir, þangklungur.

Útbreiðsla

Langalgengastar við Faxaflóa og Breiðafjörð og í stóru lónunum suðaustanlands.

Verndargildi

Miðlungs. Verndargildi leira ræðst af leirugerð (undirvistgerð). Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Áberandi gróður – Conspicuous vegetation Áberandi dýr – Conspicuous animals
Þang Fucus spp. Sandmaðkur Arenicola marina
Marhálmur Zostera angustifolia Sandskel Mya arenaria
    Mottumaðkur Fabricia stellaris
    Lónaþreifill Pygospio elegans
    Ánar Oligochaeta
    Kræklingur Mytilus edulis
    Marflær Amphipoda
    Burstaormar Polychaeta
    Bjúgormar Priapulida
    Leiruskeri Hediste diversicolor
    Þráðormar Nematoda

 

Opna í kortasjá – Open in map viewer

Margt býr í fjörunni – Fjörur eru til umfjöllunar, bæði grýttar fjörur og setfjörur, og sérstaklega er fjallað um leirur. Einnig er fjallað um gulstararfitjavist sem tilheyrir strandlendi (sýnt í Landanum á RÚV 28.10.2018).

 

Heimildir

Agnar Ingólfsson 1990. Sjávarlón á Íslandi. Fjölrit nr. 21. Náttúruverndarráð. Reykjavík.

Agnar Ingólfsson 2006. The intertidal seashore of Iceland and its animal communities. Zoology of Iceland Vol I, part 7. 85 pp.

Agnar Ingólfsson 2010. Náttúruverndargildi íslensku fjörunnar og aðsteðjandi hættur. Náttúrufræðingurinn 79 (1-4): 19-28.

Þorleifur Eiríksson, Kristjana Einarsdóttir, Christian Gallo og Böðvar Þórisson 2008. Leirur í Grunnafirði. Náttúrustofa Vestfjarða. NV-18-08.