Flagmóavist

L10.2 Flagmóavist

Eunis-flokkun: F2.294 Arctic Dryas heaths.

Lýsing

Fremur þurrt, mjög rofið, þýft mólendi, oftast áveðurs og í nokkrum halla, með flögum og grjóti í yfirborði, vaxið holtasóley, krækilyngi, þursaskeggi og fleiri mólendistegundum, allflétturíkt, yfirleitt mótað af miklu beitarálagi. Gróður snöggvaxinn, æðplöntur eru ríkjandi, mosar allnokkrir og fléttur í meira lagi.

Plöntur

Vistgerðin er mjög rík af æðplöntu- og fléttutegundum en miðlungi af mosum. Ríkjandi tegundir æðplantna eru krækilyng (Empetrum nigrum), holtasóley (Dryas octopetala) og þursaskegg (Kobresia myosuroides). Algengastir mosa eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum), melagambri (R. ericoides), móasigð (Sanionia uncinata), urðalarfi (Barbilophozia hatcheri), tildurmosi (Hylocomium splendens) og rjúpumosi (Rhytidium rugosum) en af fléttum finnst helst sandkræða (Cetraria aculeata).

Jarðvegur

Áfoksjörð er einráð, jarðvegur miðlungi þykkur, þurr, og miðlungi ríkur af kolefni og sýrustig frekar hátt.

Fuglar

Rýrt fuglalíf, helstu varpfuglar eru heiðlóa (Pluvialis apricaria) og þúfutittlingur (Anthus pratensis).

Líkar vistgerðir

Hraungambravist og lyngmóavist á láglendi.

Útbreiðsla

Finnst í hlíðum á láglendi og lágheiðum, einkum vestan- og norðanlands, á svæðum þar sem búfjárbeit hefur verið mikil og langvarandi.

Verndargildi

Lágt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.