Dýjavist

L8.1 Dýjavist

Eunis-flokkun: D2.2C12 Philonotis-Saxifraga stellaris springs.

Lýsing

Vel grónir votlendisblettir þar sem vatn sprettur fram í grýttum eða malarríkum hlíðum til fjalla og við brekkurætur, einkennist af samfelldum mosabreiðum með strjálingi af æðplöntum, gróður er lágvaxinn. Mynda oft áberandi, gulgræna gróðurfláka til fjalla. Yfirborð er hallandi og lítilsháttar mishæðótt, jarðvegur er vatnsósa og grunnvatnsstreymi fremur jafnt árið um kring. Mosabreiður dýja eru mjög þéttar, þekja æðplantna er lítil og fléttur finnast vart.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum, fremur rík af mosum en fléttuflóra fremur rýr. Algengustu tegundir æðplantna eru klófífa (Erio­phorum angustifolium), mýrelfting (Equisetum palustre), grasvíðir (Salix herbacea), lækjafræhyrna (Cerastium cerastoides), stjörnusteinbrjótur (Saxifraga stellaris) og lindadúnurt (Epilobium alsini­folium). Einkennistegundir dýjavistar eru mosarnir lindaskart (Pohlia wahlenbergii) og dýjahnappur (Philonotis fontana). Mosarnir vætukrýli (Cephalozia bicuspidata), fjallhaddur (Polytrichastrum alpinum) og lindaleppur (Scapania paludosa) eru meðal algengra tegunda í dýjum. Af fléttum finnast helst kryppukrókar (Cladonia macroceras) og hreindýrakrókar (C. arbuscula) á þurrari blettum við dýin.

Jarðvegur

Lífræn jörð er algengasta jarðvegsgerð, en einnig finnst klapparjörð. Jarðvegur er fremur grunnur og grýttur, kolefni í meðallagi en sýrustig frekar lágt.

Fuglar

Mjög fábreytt fuglalíf, en helst fæðuöflunarsvæði fyrir spörfugla og vaðfugla.

Líkar vistgerðir

Engar.

Útbreiðsla

Dýjavist finnst í öllum landshlutum og mest til fjalla. Algengust er hún á snjóþungum, blágrýtissvæðum á Austurlandi, Mið-Norðurlandi og Vestfjörðum, í 300–800 m h.y.s. Dý á landinu eru mörg en mjög lítil hvert og eitt.

Verndargildi

Miðlungs.

Opna í kortasjá – Open in map viewer

Mýri er ekki bara mýri – Mismunandi flokkun votlendis útskýrð og fjallað sérstaklega um dýjavist og rimamýravist (sýnt í Landanum á RÚV 21.10.2018).