7. mars 2007. Jón Gunnar Ottósson: Náttúruverndaráætlun og Náttúruminjaskrá: Erum við föst í víðjum fortíðar?

7. mars 2007. Jón Gunnar Ottósson: Náttúruverndaráætlun og Náttúruminjaskrá: Erum við föst í víðjum fortíðar?

Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands rekur í stuttu máli sögu náttúruverndar á Íslandi eftir setningu fyrstu náttúruverndarlaga árið 1956 og setur í samhengi við þróun þessara mála á alþjóðavettvangi.

Ný náttúruverndarlög voru sett árið 1971. Skráning náttúruminja tók þá mikinn kipp og var skráð samkvæmt ábendingum sérfræðinga og lærðra og leikra áhugamanna um náttúruvernd. Að mestu var þó byggt á huglægu mati. Áhersla var lögð á friðun svæða og tegunda og stofnun fólkvanga til útivistar. Í lok níunda áratugarins urðu aftur mikil straumhvörf í náttúruverndarmálum sem höfðu í för með sér breytt viðhorf, breyttar forsendur, nýja hugmyndafræði og þróun nýrra vinnubragða á alþjóðavettvangi. Hér á landi komu áhrifin m.a. fram í stofnun Umhverfisráðuneytis, aðild Íslands að alþjóðlegum samningum og markvissri endurskoðun laga á sviði umhverfismála í ljósi nýrra alþjóðlegra skuldbindinga.

Í náttúruverndarlögum frá árinu 1999 er m.a. kveðið á um Náttúruverndaráætlun sem hafi að markmiði að vernda líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni landsins. Unnið skuli skipulega að því að byggja upp net verndarsvæða með viðurkenndum aðferðum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og verndarviðmið. Árin 2001-2003 var unnið markvisst að undirbúningi fyrsta áfanga áætlunarinnar sem koma til framkvæmdar árin 2004-2008.

Undirbúningur fyrir næsta áfanga, árin 2009-2012, er enn ekki hafinn. Fyrirhuguð og brýn endurskoðun á Náttúruminjaskránni ætti að vera aðalatriði í undirbúningi að næsta áfanga náttúruverndaráætlunar ásamt áframhaldandi vinnu við skilgreiningu á vistgerðum og jarðminjum landsins, flokkun þeirra og mat á verndargildi. Nauðsynlegt er að við friðun svæða hafi stjórnvöld góða vitneskju um náttúrufar þeirra og skýr markmið um væntanlegan árangur af aðgerðum sínum. Mikilvægt er að halda áfram að feta þá braut sem lögð var með endurskoðun náttúruverndarlaga árið 1999 og fylgja þeirri hugmynda- og aðferðafræði sem hefur reynst öðrum þjóðum vel.