4. desember 2013. Borgþór Magnússon: Framvinda gróðurs og þróun vistkerfis í Surtsey

4. desember 2013. Borgþór Magnússon: Framvinda gróðurs og þróun vistkerfis í Surtsey

Borgþór Magnússon, plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, flytur erindi sitt „Framvinda gróðurs og þróun vistkerfis í Surtsey“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 4. desember kl. 15:15.

Hið unga vistkerfi Surtseyjar gefur færi á áhugaverðum samanburði við aðrar úteyjar Vestmannaeyja sem eru þúsundum ára eldri. Surtsey leysti gátuna um hvernig úteyjarnar mynduðust og lífverur námu þar land. Úteyjarnar sýna hins vegar hver örlög Surtseyjar verða er ár og aldir líða.

Sumarið 1965 fannst fjörukál, fyrst háplantna á strönd Surtseyjar. Nýjasti landneminn er tungljurt, smávaxinn burkni af naðurtunguætt, sem fannst í eynni sumarið 2011. Árið 2013 höfðu alls fundist 70 tegundir háplanta í Surtsey en af þeim voru 59 á lífi. Flestar fundust tegundir í eynni sumarið 2007, þá 65 að tölu, en þeim hefur heldur farið fækkandi undanfarin ár. Í úteyjum Vestmannaeyja eru tegundir hins vegar á bilinu 2-30 og ræðst fjöldinn af stærð eyja og skerja. Áætlað er að um 10% háplantna hafi borist með sjó til Surtseyjar, um 15% fyrir vindum en 75% með fuglum.

Framvinda gróðurs og jarðvegsmyndun hefur verið rannsökuð í föstum reitum í Surtsey. Framan af fjölgaði tegundum hægt í eynni og gróður var mjög gisinn. Þetta breyttist þegar máfar mynduðu þétt varp í hrauni á suðurhluta eyjarinnar upp úr 1985. Við mælingar á gróðri árið 2012 voru svæði utan  varpsvæðisins enn mjög berangursleg. Þar voru að meðaltali fjórar tegundir háplantna og 8% gróðurþekja í hverjum 100 m2 reit. Innan máfvarpsins voru hins vegar átta tegundir háplantna og 92% gróðurþekja að meðaltali í reit. Þessi munur kom einnig fram í grósku gróðurs og frjósemi jarðvegs. Á öskubornum bersvæðum var fjöruarfi  ríkjandi tegund. Innan máfvarpsins hafði hins vegar myndast graslendi þar sem sveifgrös, melgresi, túnvingull og varpafitjungur ríktu í gróðri.

Sumarið 2013 voru hafnar rannsóknir á gömlu graslendi í Elliðaey og Heimaey til samanburðar við graslendi sem tekið er að myndast í Surtsey. Fyrstu niðurstöður þeirra verða kynntar í erindinu. Sjófuglar leika lykilhlutverk í framvindu og mótun vistkerfis í úteyjum Vestmannaeyja og skiptir þar aðflutningur næringarefna frá hafi á land mestu.

Fyrirlesturinn á YouTube