26. nóvember 2008. Baldur Garðarsson: Náttúrusýn Jónasar Hallgrímssonar

26. nóvember 2008. Baldur Garðarsson: Náttúrusýn Jónasar Hallgrímssonar

Baldur Garðarsson, líffræðingur og mastersnemi í siðfræði, flytur erindi sitt „Náttúrusýn Jónasar Hallgrímssonar“ á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar miðvikudaginn 26. nóvember.

Jónas Hallgrímsson var brautryðjandi í íslenskum nátturufræðum á 19. öld. Hann er nú mun þekktari fyrir kvæði sín og önnur ritverk, en var í lifanda lífi næsta lítils metið skáld, og orti aðallega eftir pöntunum frá öðrum. 

Jónas (1807 – 1845) var uppi á tímum rómantísku stefnunnar og markaði það mjög skoðanir hans, m.a. sótti hann fast að alþingi yrði endurreist á Þingvöllum. Upplýsingaöldin, með sinni fræðslu- og nytjahyggju, var að renna sitt skeið. Hún hafði einnig áhrif á Jónas. Honum blöskraði eymd og fátækt Íslendinga og gagnrýndi hann ýmislegt harðlega, m.a. rímnakveðskap og hjátrú. Varð hann af þessu óvinsæll.  Minnst er á samskipti hans við Jón Sigurðsson, en þeir Jónas voru samstúdentar og samtímamenn í Kaupmannahöfn. Var með þeim lítill vinskapur.

Í fyrirlestrinum er fjallað um hvernig persóna Jónas var, en hann var áhrifagjarn og viðkvæmur. Líf hans var markað vonbrigðum, m.a. varðandi atvinnumál, kvennamál, ástvina- og vinamissi og eigin heilsu. Þá er rakið hvers vegna náttúran varð hans aðalviðfangsefni, en sú saga er mjög tengd einlægri trú hans á skapara sinn. Farið er yfir helstu skrif hans um náttúruna, m.a. skilgreiningar hans á hugtökum, nýyrði og hugmyndir hans um samþættingu sköpunarsögu og þróunarsögu. Greint er frá helstu verkum sem hann samdi eða þýddi á íslensku og vinnu hans við stóru Íslandslýsinguna (sem aldrei var lokið við).

Sagt er stuttlega frá þeim mönnum, sem mest áhrif höfðu á Jónas, m.a. er minnst á Eggert Ólafsson, Tómas Sæmundsson (og aðra Fjölnismenn), Björn Gunnlaugsson, Japetus Stenstrup og kennarann Forchhammer. Þá er greint frá hugsanlegum áhrifum frá þýska heimspekingnum Schelling, bæði gegn um fræðimenn og skáld.  Staða mála í vísindaheiminum á þessum tíma er stuttlega rakin, m.a. staða svonefnda hamfarakenninga (Catastropism) og sístöðuhyggjukenninga (Uniformitarianism).

Að lokum er rætt nánar um viðhorf Jónasar til náttúrunnar og hvernig það viðhorf kemur fram í ljóðum hans. Hann bar einlæga virðingu fyrir allri náttúrunni, ávarpaði gjarna dýr og náttúrufyrirbæri, eins og hann biði þess að fá svör. Vitnað verður í nokkur kvæða hans, sem sum hver eru torskilin, og fjalla m.a. um ástina, dauðann, fjallkonuna og myndlíkingar úr heimi náttúrunnar.