16. nóvember 2005. Ólafur Karl Nielsen: Ástand rjúpnastofnsins og áhrif friðunar

16. nóvember 2005. Ólafur Karl Nielsen: Ástand rjúpnastofnsins og áhrif friðunar

Í fyrirlestrinum mun Ólafur fjalla um stofnbreytingar rjúpunnar á liðnum áratugum og lýsa því hvernig stofninum hefur hnignað og hvernig viðmiðanir við veiðistjórnun hafa breyst í áranna rás. Haustin 2003 og 2004 voru skotveiðar bannaðar og verður rætt um hvernig stofninn brást við þeirri friðun. Í lokin verður fjallað um framtíðarhorfur rjúpnastofnsins í ljósi þess að veiðar hófust aftur nú í haust, 2005.

Rjúpan er mikilvægur fugl á Íslandi, hún er lykiltegund í fæðuvefnum á þurrlendi, vinsælasta veiðibráð skotveiðimanna og almenningi til yndisauka sem einkennisfugl móa og heiða. Staða hennar í fæðuvefnum helgast af því að hún er ríkjandi grasbítur úr flokki hryggdýra á þurrlendi og mikilvæg fæða nokkurra tegunda rándýra. Þannig á t.d. fálkinn allt sitt undir rjúpunni og ef ekki væri fyrir rjúpuna þrifust hér engir fálkar. Rjúpan hefur verið veidd allt frá landnámsöld og útflutningsmarkaður varð til um miðja 19. öld. Þessi markaður var í mestum blóma fyrstu fjóra áratugi 20. aldar. Útflutningur hætti um 1940 en innanlandsverslun með rjúpur hefur tíðkast alla tíð síðan.

Rjúpnastofninn sveiflast en fjöldi fugla hefur náð hámarki á um það bil 10 ára fresti. Mikil umræða hefur verið á liðnum áratugum um hvort rjúpum sé að fækka og hvort skotveiðar séu skýringin á því. Fuglafræðingar blönduðu sér í þessa umræðu um 1950 og í áratugi hafa þeir haldið því fram að skotveiðar hefðu engin áhrif á stærð rjúpnastofnsins og að það væru aðrir þættir sem settu stofninum mörk. Í fyrirlestrinum verða þær kenningar teknar til endurskoðunar.

Fræðsluerindi Náttúrufræðistofnunar eru opin öllum.