Frjómælingar sumarsins eru hafnar

Elri er búið að blómstra á flestum stöðum á landinu en lyng- og víðifrjókorn eru byrjuð að koma í frjógildrurnar. Frjótölur þeirra eru yfirleitt ekki háar vegna þess að þau dreifast aðallega með skordýrum. Næstu vikurnar er von á aspar- og víðifrjókornum en þau geta valdið ofnæmi hjá mjög viðkvæmum einstaklingum.

Birkifrjókorn eru þekktur ofnæmisvaldur, frjóin smá og dreifast víða með vindi, jafnvel landa á milli. Aðal frjótími birkis hefst yfirleitt í síðustu viku maí og er frjódreifing þá í hámarki öðru hvoru megin við mánaðarmótin maí og júní. Frjótíminn er þó háður veðráttu og getur sveiflast í samræmi við hana.

Á vefnum er hægt að skoða frjódagatal og samantekt frjómælinga síðustu ára. Þessar mælingar, ásamt veðurspám, hjálpa þeim sem eru haldnir ofnæmi að spá fyrir um frjómagn næstu daga. Ef veður er þurrt og smá vindur má búast við háum frjótölum hjá þeim tegundum sem eru að blómstra og dreifa frjóum sínum með vindi. Í röku veðri eru frjótölur mun lægri.

Sjá einnig nánar um frjókorn og frjómælingar.

BIRKIFRJÓ 2017 - GRASFRJÓ 2017