Endurskoðuð tilskipun forseta Bandaríkjanna um ágengar tegundir

Náttúrufræðistofnun Íslands vekur athygli á því að hinn 5. desember síðastliðinn gaf Barack Obama Bandaríkjaforseti út endurskoðaða opinbera tilskipun til opinberra framkvæmdaaðila, um ágengar tegundir, sem var fyrst gefin út 1999. Í henni kemur fram að það sé stefna Bandaríkjanna að koma í veg fyrir innflutning, landnám og dreifingu ágengra tegunda sem og að uppræta og hafa hemil á stofnum ágengra tegunda sem hafa náð fótfestu í landinu.

Með tilskipuninni er viðurkennt að ágengar tegundir ógni velmegun, öryggi og lífsgæðum, auk þess að hafa neikvæð áhrif á náttúru og náttúruauðlindir, landbúnað, matvælaframleiðslu, vatnsauðlindir og heilbrigði manna, dýra og plantna. Jafnframt að ágengar tegundir geti haft neikvæð áhrif á innviði, efnahagslíf, menningarauðlindir og viðbúnað, svo sem á vegum hersins. Á hverju ári nemur kostnaður af völdum ágengra tegunda í Bandaríkjunum milljörðum dollara.

Obama tók það sérstaklega fram að ástæða væri til að hafa auknar áhyggjur af ágengum tegundum sem gætu verið uppspretta að sjúkdómum sem ógna heilsu mann, dýra og plantna. Þetta þyrfti að skoða sérstaklega í samhengi við loftslagsbreytingar. Tilskipunin hvetur alríkisstofnanir Bandaríkjanna til aðgerða í ljósi þess að loftslagsbreytingar hafa áhrif á landnám, dreifingu og áhrif af völdum ágengra tegunda.

Tilskipunin fyrirskipar að halda áfram samræmdum fyrirbyggjandi og hamlandi aðgerðum gegn ágengum tegundum. Hún leggur áherslu á þörfina fyrir aukna vöktun og rannsóknir á ágengum tegundum svo hægt sé að upplýsa tímanlega um breytingar og hafa vísindalegan grunn fyrir ákvörðunartöku.

Tilskipunin í heild sinni