Skrifstofa NOBANIS til Náttúrufræðistofnunar Íslands

Forsíða vefs NOBANISNOBANIS var sett á laggirnar árið 2004 sem samstarfsverkefni Norðurlandaþjóða og Eystrasaltsríkjanna, styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Megintilgangur verkefnisins er að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra framandi tegunda og að þróa og búa til net gagnagrunna með upplýsingum um framandi tegundir og gera þær aðgengilegar á vefnum. Stofnað var til verkefnisins í kjölfar tilmæla sem lögð voru fram á 6. fundi aðildarþjóða samningsins um líffræðilega fjölbreytni árið 2002. Á þeim fundi var barátta gegn ágengum framandi tegundum sett í forgang og áhersla lögð á samvinnu, bæði innan ríkja og á alþjóðavettvangi.

Frá því að verkefnið hófst hefur þátttökulöndum fjölgað og eru þau nú um 20 talsins: Austurríki, Hvíta-Rússland, Belgía, Tékkland, Danmörk, Eistland, Færeyjar, Finnland, Þýskaland, Grænland, Ísland, Írland, Lettland, Litháen, Holland, Noregur, Pólland, Slóvakía, Svíþjóð og evrópski hluti Rússlands. Búist er við að fleiri lönd bætist í hópinn.

Pawel Wasowicz, grasafræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands og fulltrúi stofnunarinnar í verkefninu, hefur umsjón með rekstri skrifstofu NOBANIS.