Ný bók um íslenskar fléttur

Í inngangsköflum bókarinnar er gerð grein fyrir líffræði fléttna, efnafræði þeirra og útbreiðslu. Litmyndir eru af öllum tegundum og teikningar af gróum fjölmargra þeirra og aftast í bókinni er einfaldur greiningarlykill.

Á bókarkápu segir: „Markmið þessarar bókar er að kynna fléttur (skófir) fyrir íslenskum almenningi og gefa lesendum möguleika á að greina algengustu fléttur úti í náttúrunni. Í bókinni er fjallað um 392 tegundir, sem lætur nærri að sé helmingur þeirra tegunda sem skráðar hafa verið á Íslandi. Leitast hefur verið við að hafa sem flestar algengar tegundir með, einkum blað- og runnfléttur, en einnig algengustu hrúðurfléttur og þær sem áberandi eru í umhverfinu. Ljósmyndir eru birtar af öllum tegundunum og jafnframt lítið kort sem sýnir útbreiðslu þeirra á landinu.

Að baki þessu verki er áratugalöng rannsóknarvinna Harðar Kristinssonar og annarra sem komið hafa að verki með honum. Elstu ljósmyndir í bókinni eru frá árinu 1961 en þær yngstu frá 2016. Flétturnar eru flokkaðar eftir ákveðnu kerfi og bera nöfn í samræmi við það. Gömul alþýðunöfn halda samt sínum sessi, svo sem álfabikar, mókrókar, fjallagrös, maríugrös, mundagrös, engjaskóf og skollakræða.“

Hörður Kristinsson hefur verið afkastamikill fræðimaður á sviði grasafræði í rúmlega hálfa öld og eftir hann liggja tæplega 150 ritsmíðar á því sviði. Hann starfaði við Náttúrugripasafnið á Akureyri og Lystigarð Akureyrar á árunum 1970–1977, var prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands 1977–1987 og stýrði Náttúrufræðistofnun Norðurlands, síðar Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands, 1987–1999. Eftir það var hann sérfræðingur hjá stofnuninni þar til hann fór á eftirlaun árið 2007.

Það er Hið Íslenska Bókmenntafélag sem gefur bókina út í samstarfi við Opnu.