Frjókorn komin í loftið

Átta tegundir af elriættkvísl, Alnus, eru ræktaðar hér á landi, oftast sem stök tré í görðum. Ölur er fyrstur allra tegunda, sem valda ofnæmi, til að blómstra á vorin eða fljótlega eftir að hitastig fer upp fyrir 5°C. Stundum má jafnvel sjá útsprungna rekla hanga á greinum strax í mars en með blómguninni fara frjókorn að dreifast út í andrúmsloftið.

Ölur er af sömu ætt og birki og hafa frjóin sömu ofnæmisvaka. Fólk með ofnæmi fyrir birkifrjói getur því fundið fyrir einkennum löngu áður en birkið blómgast, ef það er í námunda við blómstrandi öl. Frjókornin mælast sjaldan hér á landi vegna þess að frjómælingar hefjast jafnan eftir að ölur hefur blómgast en einnig vegna þess hve fá trén eru.

Fyrstu frjó til að mælast í frjógildrunum eru lyng- og víðifrjó, oftast um miðjan apríl. Frjótölur þeirra eru þó ekki háar vegna þess að þau dreifast aðallega með skordýrum. Báðar tegundir eru þekktir ofnæmisvaldar en ekki eins skæðar og birki eða elri, sem eru nær eingöngu vindfrævaðar. Asparfrjó, sem geta valdið ofnæmi, birtast í maí.

Birki blómgast venjulega um og eftir miðjan maí. Á Norðurlöndunum blómgast það í apríl og dæmi eru um að frjókorn þaðan, að því talið er, hafi mælst hér á landi áður en íslenska birkið var byrjað að dreifa frjóum sínum. Birki er einn skæðasti ofnæmisvaldur á Norðurlöndunum en grasofnæmi er algengara hér á landi.

Frjómælingar hófust í Garðabæ og á Akureyri í apríl og standa þær yfir til 30. september. Í sumar verður hægt að fylgjast með mælingum á birki- og grasfrjóum á vef stofnunarinnar og í textavarpi RUV. Birkifrjómælingar byrja að birtast vikulega í maí og grasfrjómælingar í júní. Mælingarnar er gott að nota sem viðmið um hvenær blómgun tegundanna hefst og geta þær, ásamt veðurspám, hjálpað þeim sem eru haldnir ofnæmi að spá fyrir um frjómagn. Ef veður er þurrt með svolitlum vindi má búast við háum frjótölum hjá blómstrandi tegundum sem dreifa frjóum sínum með vindi. 

Á vefnum er einnig að finna frjóalmanak og samantekt frjómælinga

Nokkur ráð til þeirra sem eru með frjókornaofnæmi

  • Forðast að fara út þar sem er mikið af birki og óslegnu grasi. Gras dreifir helst frjóum sínum snemma morguns (kl. 7–10) og seinnipart dags (kl. 16–19)
  • Ekki þurrka þvott utandyra
  • Sofa við lokaðan glugga
  • Slá grasið áður en það blómgast
  • Skipta um föt og þvo hárið eftir að hafa verið nálægt frjódreifingu
  • Nota sólgleraugu og höfuðföt
  • Bursta og þvo feld heimilisdýra
  • Aka um með lokaða glugga og hafa góða frjókornasíu í loftræstingunni
  • Taka lyf samkvæmt læknisráði