Ársfundur og ársskýrsla

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra gat því miður ekki setið fundinn vegna anna, en Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri ávarpaði fundinn í hennar stað. Í ávarpinu ræddi hún um nokkur af mikilvægum verkefnum sem unnið er að í ráðuneytinu og tengjast starfsemi og verkefnum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Meðal þeirra eru ný náttúruverndarlög, landskipulagsstefna 2015–2026, lög um innviði til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, kynningarfundir verkefnisstjórnar rammaáætlunar og verkaskipting stofnana ráðuneytisins. Ávarpið verður hægt að nálgast á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Næst flutti Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands skýrslu ársins 2015 þar sem hann greindi meðal annars frá starfsemi stofnunarinnar. Fyrst sagði  hann frá niðurstöðum viðhorfskönnunar Capacent frá því í febrúar þar sem traust almennings til stofnunarinnar er kannað.  Náttúrufræðistofnun nýtur trausts meirihluta landsmanna líkt og undanfarin ár. Natura Íslands var stærsta og umfangsmesta verkefnið 2015 en niðurstöður þess, m.a. flokkun vistgerða á landi, í fersku vatni og fjöru og kortlagning þeirra, verður kynnt haustið 2016.  Önnur verkefni sem forstjóri tæpti á eru flutningur borkjarnasafns stofnunarinnar frá Akureyri til Breiðdalsvíkur, flutningur steypireyðarbeinagrindar sem lánuð hefur verið til sýningar á Hvalasafninu á Húsavík, fyrirhuguð sameining Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og nýr vefur stofnunarinnar. Forstjórinn ræddi jafnframt ítarlega um fjármál stofnunarinnar og þróun þeirra undanfarin ár og að lokum vék hann að nýjum náttúruverndarlögum en með þeim fær Náttúrufræðistofnun Íslands aukið hlutverk í framkvæmd og stjórnsýslu náttúruverndar. Að öðru leyti vísaði forstjóri til umfjöllunar um verkefni í ársskýrslu.

Þá flutti Kristín Hermannsdóttir forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands ávarp og fjallaði um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra. Hún vék að mikilvægi þess að fylgjast með hvernig náttúran bregst við breytingum á loftslagi og nefndi í því sambandi samvinnu og samræmingu á milli náttúrustofa og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Þá var komið að sérfræðingum stofnunarinnar sem fluttu erindi um um fjölbreytt viðfangsefni. Anna Sveinsdóttir forstöðumaður upplýsingadeildar og vefstjóri kynnti nýjan vef stofnunarinnar; Birgir Vilhelm Óskarsson jarðfræðingur fjallaði um notkun borkjarna við jarðfræðikortagerð; Matthías Svavar Alfreðsson líffræðingur og meistaranemi í skordýrafræði greindi frá rannsóknum á skógarmítlum og lúsmýi; Gunnhildur Ingibjörg Georgsdóttir umhverfisfræðingur fjallaði um látur og hvíldarstaði landsels og útsels; og Skafti Brynjólfsson jarðfræðingur ræddi um jökla á Tröllaskaga.

Ársskýrsla stofnunarinnar fyrir árið 2015 er efnismikil og þar er fjallað um ýmis verkefni sem unnið hefur verið að á stofnuninni.