Frjótíma birkis að ljúka en grasa að hefjast

Í Garðabæ var heildarfjöldi frjókorna í júní 949 frjó/m3 sem er talsvert undir meðaltali síðustu fjögurra ára (1589 frjó/m3). Aðalfrjógerðir voru birki-, gras- og furufrjó. Á Akureyri fór heildarfjöldi frjókorna upp í 1151 frjó/m3 sem er meira en í meðalári (671 frjó/m3). Langalgengasta frjógerðin var birki en aðrar tegundir sem fóru yfir 10 frjó/m3 á einum degi voru víðir, gras og fura.

Birki

Frjótími birkis hófst í Garðabæ 11. júní og náði hámarki 26. júní. Frjótalan fór aldrei yfir 100 frjó/m3 en tvisvar yfir 50. Heildarfrjótala birkis var 411 frjó/m3 sem er vel undir meðaltali, annað árið í röð.

Á Akureyri mældust fyrstu birkifrjóin 2. júní og var frjótalan hæst þann 16. júní, 182 frjó/m3. Heildarfrjótala birkis var 796 frjó/m3 og aðeins einu sinni síðan mælingar hófust hefur hún verið hærri, það var í júní 2005.

Birkifrjóum í lofti hefur fækkað ört og er frjótíma birkis um það bil að ljúka.

Gras

Í Garðabæ mældust fyrstu grasfrjóin þann 18. júní og síðan þá hefur þeim fjölgað jafnt og þétt. Heildarfrjótala var 187 frjó/m3. Á Akureyri komu fyrstu grasfrjókornin fram 13. júní og var heildarfrjótala grass í júní aðeins 49 frjó/m3 sem er undir meðaltali.

Aðalfrjótími grasa er nú framundan, það er júlí og ágúst.

Þegar veður er hlýtt, þurrt og golu gætir eru flest frjókorn í lofti. Þá ættu þeir sem eru haldnir ofnæmi að vera á verði, sérstaklega nálægt óslegnu grasi. Á þannig dögum ætti einnig að forðast að þurrka þvott úti og sofa við lokaðan glugga.

Þess ætti að gæta að slá gras áður en það blómgast því þá má koma í veg fyrir frjómyndun. Fari frjótölur grass yfir 10–20 frjó/m3 á einum degi má búast við að ofnæmiseinkenna verði vart.

Fréttatilkynning