Æðarfugl verpir í Surtsey

Sitthvað markvert gerðist í leiðangri sem farinn var til Surtseyjar dagana 13.–17. júlí. Æðarfugl fannst þar með nýklakta unga en varp hans hefur ekki verið staðfest fyrr. Tvær nýjar tegundir háplantna fundust, ljónslappi og stinnastör, og tvær tegundir fiðrilda auk fleiri smádýra. Jarðhiti hefur aukist í Vesturbunka miðað við síðustu mælingar og nýlegar gliðnunarsprungur fundust undir bunkanum.

Líffræðingar og jarðfræðingar frá Náttúrufræðistofnun voru við rannsóknir í eynni 13.–17. júlí ásamt sérfræðingi frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Með í för voru einnig sérfræðingur Umhverfisstofnunar og bandarískur vísindarithöfundur til að afla efnis um Surtseyjarrannsóknir. Leiðangurinn var skipulagður í samvinnu við Surtseyjarfélagið.

Gróður

Tvær nýjar tegundir háplantna fundust í eynni, ljónslappi og stinnastör. Á ljónslappanum voru sinublöð frá síðasta ári og stinnastörin hafði skotið upp nokkrum blómstönglum. Því má gera ráð fyrir að hún sé eldri en tvævetur. Báðar tegundirnar eru lífvænlegar.

 

Allar tegundir fyrra árs fundust á lífi og lækjagrýta sem talin var hafa horfið fyrir nokkrum árum fannst nú á nýjum vaxtarstað. Alls fundust í leiðangrinum 64 tegundir háplantna á lífi í eynni sem er með mesta móti. Áður höfðu fundist flestar 65 tegundir árið 2007.

Í leiðangrinum var lokið við að kortleggja útbreiðslu háplantna í eynni skv. 100 x 100 m reitkerfi, en það var síðast gert fyrir níu árum. Í ljós kom að tegundum hafði fjölgað á stórum hluta eyjarinnar, einkum með jöðrum máfavarpsins á suður- og austurhluta eyjarinnar. Í elsta hluta varpsins er graslendi hins vegar orðið mjög þétt og gróskumikið og þar hafði tegundum fækkað frá síðustu úttekt.

Í föstum mælireitum voru tekin uppskerusýni og var mæld ljóstillífun og öndun í jarðvegi. Yfirbragð góðurs breytist með ári hverju. Sumarið kom seint og hafði það áhrif á þroska háplantna. Í máfavarpinu gætti þess nokkuð að vallarsveifgras hefði drepist og skilið eftir sig opnur sem haugarfi var að leggja undir sig. Í sendnu landi ofan við máfavarpið er að verða mikil aukning á holurt og melablómi. Einnig er kattartunga í hraðri útbreiðslu.

Dýralíf

Svo virðist sem varp fugla hafi farið seint af stað vegna tafa á sumarkomu. Samt var það með eðlilegum hætti hjá flestum tegundum. Svartbökum hafði  fjölgað töluvert en ungar voru óvenju skammt á veg komnir í þroska. Silfurmáfum hafði fækkað nokkuð og sílamáfum einnig, en ungar þeirra voru með færra móti. Rituvarp var með alminnsta móti en aðeins fáein pör sáust í bjargi. Teistur virtust sjálfum sér líkar og lundi sást stinga sér inn í sprungu á hefðbundnum varpstað í bjarginu. Hrafnspar eyjarinnar hafði gert sér laup í vor og komið einum unga á legg. Fýlavarp hafði aukist verulega á jafnsléttu í máfavarpinu, en fá pör höfðu náð að klekja út ungum í gígunum þar sem jafnan eru tugir para. Fáein pör snjótittlinga voru með unga í hreiðrum, eitt til tvö pör þúfutittlinga voru í varpi og maríuerlufjölskylda komin á flug.

Nýr varpfugl fannst. Æðarkolla með þrjá nýskriðna unga sást leiða unga sína niður hnullungafjöru til sjávar. Æðarfugl hefur talist líklegur til að reyna varp.

Smádýralíf var rannsakað og litu nokkrar nýjungar dagsljósið. Ber þar hæst tvær tegundir fiðrilda. Flikruvefari (Cochylis dubitana) flaug á takmörkuðu svæði í nýrri hluta máfavarpsins. Fundust allnokkrir einstaklingar. Hin tegundin er smáfiðrildið Scrobipalpa samadensis sem lifir á kattatungu við sjávarsíðu landsins. Kattartunga er í mikilli aukningu og eru aðstæður fyrir fiðrildið kjörnar á eynni.

Jarðfræði

Nákvæmar hitamælingar voru gerðar í sprungum á yfirborði móbergsins í Austur- og Vesturbunka. Hiti var mældur á 10-20 cm dýpi frá yfirborði og  mældist vel yfir 90°C, efst í bunkunum. Sérstaka athygli vekur að hitastig hefur hækkað talsvert í flestum sprungum á Vesturbunka, en var svipað og undanfarin ár í Austurbunka. Hiti mældist mestur 99,6°C í Vesturbunka. Hitamælingarnar eru liður í langtímavöktun á kólnun jarðhitakerfisins sem myndaðist undir lok Surtseyjarelda. Þessi jarðhiti hefur skipt sköpum um myndun móbergs í eynni. Í leiðangrinum voru einnig tekin sýni af móbergi og gjósku til frekari rannsókna.

Röð af niðurföllum komu í ljós í sandorpnum hraunjaðri við Vesturbunka. Greinilegt er að þar liggur sprunga sem hefur hreyfst nýlega. Talið er líklegt að það hafi gerst í jarðskjálftum sem mældust 25. apríl 2015 við Surtsey, 3,1 og 1,2 stig að stærð, sjá jarðskjálftayfirlit). Ætla má að hærra hitastig í jarðhitasprungum á Vesturbunka tengist einnig þessum skjálftum.

Rof og setflutningar í eynni voru kannaðir og GPS mælingar gerðar á suðurströnd Surtseyjar og á tanganum. Mikið rof er enn á hraununum við suðurströnd Surtseyjar. Sjórinn á auðvelt með að brjóta niður hraunin og grafa undan hraunstálinu. Við það myndast sprungur samsíða bjargbrúninni og stórar bergspildur hverfa í hafið. Rekja má slíkar brotasprungur eftir allri suðurströndinni.

Tanginnn breytist sífellt á milli ára þar sem sjávaraldan bæði brýtur hann niður og færir honum efnivið úr hraunum og móbergi eyjarinnar. Stórir og miklir móbergshnullungar eru áberandi á vesturströnd tangans en minni hraunhnullungar á austurströndinni. Í ár hefur myndast á odda tangans myndarlegur sveigur til vesturs sem tengist miklum öldugangi úr austri og norðaustri.  Staðsetning tangans er svipuð og síðasta sumar. Hann teygir sig jafnlangt til norðurs og ströndin austan við tangann er svipuð. Aftur á móti hefur rofnað vestan úr tanganum og er hann mjórri en áður.

Leiðangursfólk

Þátttakendur í leiðangrinum að þessu sinni voru Borgþór Magnússon (leiðangursstjóri), Erling Ólafsson, Kristján Jónasson, Lovísa Ásbjörnsdóttir, Matthías S. Alfreðsson, Pawel Wasowicz og Sigurður H. Magnússon frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Bjarni Diðrik Sigurðsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Loree Griffin Burns, rithöfundur frá Boston, og Þórdís Vilhelmína Bragadóttir frá Umhverfisstofnun.