Vorið leit við í Hafnarfirði

Ánamaðkurinn grááni er vorboði sem margir veita athygli. Þegar yl tekur að leggja niður í jarðveg vaknar hann af dvala sínum og skríður upp á yfirborð. Þetta gerist jafnan eins og fingrum sé smellt þegar vorið kallar. Allt í einu birtist fjöldi gráána skríðandi um stéttar og stíga og enginn veit hvert þeir stefna. Að þessu sinni gerðist þetta í Hafnarfirði í morgunsárið 21. mars. Svo virðist sem grááninn hafi þennan háttinn á við að dreifa sér sem víðast fyrir lífsbaráttu sumarsins. Þetta er hættuspil því maðkarnir eru berskjaldaðir og óvarðir fyrir hungruðum þröstum og störum.

Daginn eftir sýndi sig vorboðinn hrjúfi einnig í Hafnarfirði. Tveir sílamáfar tylltu sér á Hamarskotslæk og viðhöfðu ástaratlot til að staðfesta að þeir væru komnir heim. Þetta er í fyrra fallinu því venjulega koma fyrstu sílamáfar á Lækinn fyrstu daga aprílmánaðar. Það vorar því snemma í Hafnarfirði eftir rysjóttan veturinn.