Met í fuglamerkingum

Fuglar hafa verið merktir á Íslandi síðan árið 1921 og fer Náttúrufræðistofnun Íslands með umsjón fuglamerkinga. Alls hafa verið merktir 668.144 fuglar af 153 tegundum, mest af snjótittlingi eða tæplega 80 þúsund fuglar.

Á vef stofnunarinnar hefur verið birt skýrsla um fuglamerkingar 2014. Mest var merkt af auðnutittlingi en þar á eftir komu snjótittlingar, skógarþrestir, kríur og rauðbrystingar. Tvær tegundir voru merktar í fyrsta sinn hér á landi, peðgrípur Ficedula parva og mistilþröstur Turdus viscivorus.

Fjöldi fugla endurheimtust á árinu, algengastir voru sílamáfar, þá æðarfuglar, auðnuittlingar, álftir og snjótittlingar. Í hópi endurheimtra fugla var ein ný tegund, roðþerna (Sterna dougallii), en hingað til hafa 112 tegundir skilað endurheimtum.

Tvö aldursmet voru slegin á árinu. Elsta íslenska súlan sem hefur endurheimst var merkt sem ungi í Eldey 1982 og drapst í fiskineti við Vestmannaeyjar í október 2014, þá 32 ára og þriggja mánaða. Þá sást merkt álft í Köldukinn í S-Þings sem orðin var 27 ára og sex mánaða. Verið er að kanna hvort það sé mögulega elsta álft í Evrópu. Þess má geta að  elsti fugl sem endurheimst hefur á Íslandi til þessa er lundi sem var 45 ára og næstelstur er fýll sem varð 40 ára og eins mánaða.

Langförulasti fuglinn sem endurheimtur var í fyrra var sanderla sem merkt var í Asenko village í Ghana haustið 2009, hún var mynduð í Kalmansvík við Akranes í maí, 6788 km frá merkingarstað.

Fuglamerkingar 2014