Óvelkomnir slöngumaðkar

Slöngumaðkar tilheyra ættinni Megascolecidae og eru því ekki af sama toga og ánamaðkarnir okkar hefðbundnu sem eru af ættinni Lumbricidae. Upprunaleg heimkynni slöngumaðka ná frá Austur-Asíu suður til Eyjaálfu og einhverra tegunda í Norður-Ameríku. Af slöngumöðkum er fjöldi tegunda. Þekktust er risavaxni maðkurinn í Ástralíu, 'Gigant Gippsland earthworm' (Megascolides australis) sem getur orðið allt á þriggja metra langur.

Slöngumaðkarnir fundust í Þingholtunum í Reykjavík, fyrst einn og síðar fleiri þegar finnandi var beðinn um að kíkja betur í safnhauginn sinn. Atferli maðkanna reyndist einstakt og afar frábrugðin því sem við eigum að venjast hjá ánamöðkum. Þeir eru grannir og stinnir, slengjast til með snöggum S-formuðum hnykkjum, hlykkjast, hoppa og skoppa eins og skrikkdansarar. Þegar þeim er sleppt lausum eru þeir fljótir að hverfa niður í svörðinn.

Þó enn hafi ekki tekist að greina slöngumaðkana til tegundar er nokkuð ljóst að um er að ræða tegund af ættkvíslinni Amynthas sem rakin er til Austur-Asíu. Fjórar tegundir eru skráðar fundnar í Evrópu, taldar hafa borist þangað með innfluttum plöntum frá Asíulöndum og jafnvel náð festu í gróðurhúsum sums staðar.

Slöngumaðkar hafa einnig borist til austanverðrar Norður-Ameríku og valda þar áhyggjum því þeir geta sett allt á annan endann í vistkerfum. Þeir þykja einkar öflugir við að brjóta niður rotnandi plöntuleifar og losa þannig um næringarefnin í jarðveginum. Þessi kraftur þeirra virkar sannarlega vel í safnhaugum. En slíkur hraði niðurbrots er hins vegar ekki æskilegur í öllum vistkerfum því margar plöntur kjósa meiri stöðugleika í jarðveginum og fá ekki þrifist við svo hraða umbyltingu. Dæmi eru um það í Ameríku að gróður hafi horfið af skógarbotnum þar sem slöngumaðkar hafa náð völdum í jarðvegi. Þá eru slöngumaðkar sagðir svo  gráðugir að þeir láta ekki rotnandi plönturnar einar sér duga, leggjast einnig á lifandi plöntur og eyða þeim. Í Ameríku ganga slöngumaðkar undir ýmsum heitum lýsandi fyrir atferli þeirra: Asian crazy wormsAsian jumping wormscrazy snake wormsjumpy worms eða einfaldlega jumpers.

Þetta er enn eitt dæmið um það hvaða hættur eru fólgnar í innflutningi á pottaplöntum með rót í jarðvegi. Það er í sjálfu sér ekki vitað hvernig slöngumaðkarnir bárust hingað, heldur ekki hvernig þeim kemur til með að vegna og þá í framhaldinu haga sér. Alla vega er um að ræða kvikindi af ættkvísl maðka sem á vafasama sögu í numdum lendum vestan Atlantsála.

Slöngumaðkar á Youtube