Birkifeti skaðar bláberjalyng


Lyngbrekka í Meðaldal við Dýrafjörð sölnuð eftir atlögur birkifeta, 23. ágúst 2013. Ljósm. Erling Ólafsson.

Svo virðist vissulega sem bláberjalyng hafi jafnað sig víða eftir atlögur birkifetans undanfarin ár og berjaspretta sé góð. Svo er þó ekki alls staðar. Sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands, sem voru á ferð um Vestfirði við gróðurmælingar, urðu þess áskynja að birkifetinn var ekki vandræðalaus alls staðar. Víða mátti sjá eftir hann nokkur ummerki í lyngbrekkum. Ástandið var einkar slæmt í sunnanverðum Dýrafirði og víða á Barðaströnd.


Bláberjalyng í Meðaldal við Dýrafjörð illa útleikið eftir birkifeta, 23. ágúst 2013. Ljósm. Erling Ólafsson.

Skaðinn er e.t.v. að koma fram síðar nú en áður því vorkuldar gerðu það að verkum að fiðrildin flugu mun seinna en eðlilegt þykir, en þau fljúga mestmegnis í júní til að verpa. Lirfurnar eru því seinna á ferðinni sem því nemur. Nú í seinni hluta ágúst voru þær rétt um hálfvaxnar. Sölnaðar lyngbrekkur eru því að birtast okkur í seinna lagi. Lyngbrekka í Meðaldal í Dýrafirði var skoðuð sérstaklega og ástandið þar einkar ljótt. Víðfeðmur lyngmóinn var brúnn yfir að líta, allt bláberjalyng og aðalbláberjalyng var upp étið og mikill fjöldi lirfa var að éta það litla sem eftir var af grænum laufblöðum neðan til í lynginu. Berjaframleiðsla lyngsins var engin.


Lirfa birkifeta étur bláberjalyng í Meðaldal við Dýrafjörð, 23. ágúst 2013. Ljósm. Erling Ólafsson.

Ekki er vitað hve víðfeðmur skaðinn er á Vestfjarðakjálka en hann er að öllum líkindum staðbundinn. Víðast hvar var ástandið í eðlilegu horfi og lyng hlaðið berjum. Hins vegar má væntanlega sjá skemmdirnar birtast í auknum mæli frá degi til dags á næstu dögum eða þar til lirfurnar eru fullvaxnar og hverfa niður í svörð til að púpa sig fyrir veturinn.

Birkifeti nærist bæði á birki og bláberjalyngi. Honum virðist hafa farið fjölgandi samfara hlýnun loftslags á undanförnum áratug og samtímis lagst á bláberjalyngið í auknum mæli enda víða mun meira framboð af þeim fæðukosti.

Birkifeti á pödduvefnum.