Ársfundur Náttúrufræðistofnunar Íslands 2013

Frá ársfundi Náttúrufræðistofnunar 2013. Ljósm. Kjartan Birgisson.

Á ársfundinum flutti Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ávarp þar sem hún leit um öxl og rifjaði upp viðburðarík ár kjörtímabilsins sem er að enda. Að mati hennar hefur náðst mikill árangur í umhverfis- og náttúruverndarmálum og metnaðarfull markmið ríkisstjórnarinnar í umhverfis- og auðlindamálum hafa meira og minna náðst. Þakkaði hún starfsmönnum Náttúrufræðistofnun Íslands fyrir mikla vinnu sem þeir hafa lagt af mörkum í mikilvægum náttúruverndarmálum og fyrir það mikilvæga verkefni að auka þekkingu og skilning manna á gangverki náttúrunnar, eðli hennar og þýðingu fyrir samfélagið. Ávarpið í heild má lesa á vef umhverfisráðuneytisins.

Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands flutti skýrslu um árið 2012 þar sem hann greindi frá viðburðaríku ári hjá stofnuninni. Þar ber helst að nefna samning Náttúrufræðistofnunar og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um fjármögnun verkefnisins Natura Ísland, sem tók gildi í lok júní 2012 og gildir í þrjú ár. Verkefnið miðar að því að undirbúa framkvæmd vistgerða- og fuglatilskipana sambandsins hér á landi með því að uppfylla vísindalegar skyldur hvað varðar söfnun, greiningu og flokkun náttúrufarsgagna ef landið gerðist aðildarríki ESB. Á árinu var einnig stigið mikilvægt og langþráð skref með aðild Íslands að samningi ríkja um vernd fartegunda sjó- og vatnafugla, þ.e. African-Eurasian Waterbird Agreement (AEWA), en Náttúrufræðistofnun annast framkvæmd samningsins. Þá er það fagnaðarefni að frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga sem lagt var fram haustið 2012 var samþykkt fyrir þinglok í mars 2013. Með nýju lögunum fær Náttúrufræðistofnun aukið hlutverk í framkvæmd og stjórnsýslu náttúruverndar, aukna ábyrgð og ný verkefni. Þá var greint frá fyrsta áfanga heildstæðrar vöktunaráætlunar íslenskrar náttúru sem Náttúrufræðistofnun kynnti árið 2012. Áætlunin nær til fugla og háplantna. Í skýrslu forstjóra var þar að auki fjallað um ýmsa viðburði ársins, m.a. breytingar á stjórnkerfi stofnunarinnar, nýtt tölvukerfi, nýtt verkbókhaldskerfi, samgöngustefnu, samstarfsyfirlýsingu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafns Íslands o.fl.

Þá flutti Ingvar Atli Sigurðsson, formaður samtaka um náttúrustofur, ávarp og fjallaði um stöðu náttúrustofa og samstarf við Náttúrufræðistofnun Íslands og Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands flutti erindi um stórt skref í kortagerð á Íslandi.

Í fræðilegri dagskrá fundarins var sjónum einkum beint að verkefninu Natura Ísland. Verkefninu er skipt upp í fjóra rannsóknahluta eftir viðfangsefnum, þ.e. vistgerðir á landi, ferskvatnsvistgerðir, fjöru- og sjávarvistgerðir og fuglarannsóknir, og voru flutt erindi um hvern hluta. Sigurður H. Magnússon fjallaði um landvistir, Þóra Hrafnsdóttir um vatnavistir, Sigríður Kristinsdóttir um fjöruvistir og Kristinn Haukur Skarphéðinsson um fugla og búsvæði. Að auki hélt Sigmundur Einarsson erindi um flokkun og skráningu jarðminja og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sagði frá myglusveppum innanhúss og vandamál af þeirra völdum.

Í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2012 er fjallað ýmis verkefni sem unnið hefur verið að á stofnuninni.