Fálkatalning 2011

Talningasvæðið er í Þingeyjarsýslum á Norðausturlandi. Talningin fer fram í maí til júlí en þá eru fálkaóðul heimsótt og gengið úr skugga um hvort þau séu í ábúð eða ekki. Fálkaóðalið er hreiðurkletturinn og næsta nágrenni hans en veiðilendurnar eru sameiginlegar öllum fálkum. Óðalið er miðpunkturinn í lífi fullorðinna fálka og þar dvelja þeir árið um hring. Þessir staðir eru hefðbundnir og notaðir af fálkum ár eftir ár, kynslóð eftir kynslóð. Þegar fálkum fækkar fara óðulin í eyði en eru setin á ný er fálkum fjölgar. Á rannsóknasvæðinu eru þekkt 83 óðul og 49 þeirra voru í ábúð í ár (59%).


Fálki á flugi. ©Ólafur Karl Nielsen.

Aðalfæða fálkans er rjúpa og stærð varpstofns fálkans ræðst af stærð rjúpnastofnsins. Stærð rjúpnastofnsins sveiflast og er í hámarki á um það bil ellefu ára fresti. Síðasta rjúpnahámark var 2010. Stofnstærð fálkans sýnir hliðstæðar sveiflur og rjúpnastofninn en með hniki og þannig er mest um fálka tveimur til fjórum árum á eftir hámarki í stofnstærð rjúpu. Breytileiki í stofnstærð er þó miklu meiri hjá rjúpu en fálka, hjá fyrrnefndu tegundinni getur munur á stærð varpstofns í hámarks- og lágmarksári verið fimm- til tífaldur en hjá fálka tæplega tvöfaldur.

Fálkastofninn á rannsóknasvæðinu hefur verið talinn á hverju ári frá 1981 (sjá línurit hér fyrir neðan). Á þessum árum hefur rjúpnastofninn verið í hámarki þrisvar sinnum: 1986, 1988 og 2010. Einnig var veruleg aukning rjúpna í kjölfar skotfriðunar 2003 og 2004. Rjúpnamergðin var mest 1986, en mun minni hin hámarksárin. Stofnbreytingar fálkans eru í samræmi við þessa mynd. Þannig var hlutfall fálkaóðala á rannsóknasvæðinu í ábúð hæst á árabilinu 1988 til 1991 en þá voru um 75% fálkaóðalanna í ábúð (um 62 óðul). Fálkastofninn hefur aldrei náð hliðstæðu flugi í kjölfar þeirra hámarksára rjúpunnar sem síðan hafa komið. Þannig var ábúðahlutfallið mest 67% í kjölfar rjúpnatoppsins 1998 og er sumarið 2011, ári eftir hámark rjúpunnar, 59% líkt og að ofan segir. Það má búast við því að þetta hlutfall hækki eitthvað næstu tvö árin en síðan er viðbúið að það fari lækkandi. Næsta hámark í rjúpnastofninum verður á árunum 2020 til 2022, komandi ár munu einkennast af vaxandi rjúpnaþurrð og því erfiðari lífsskilyrðum fyrir fálka. Miðað við fyrri reynslu má búast við að rjúpnastofninn byrji aftur að taka við sér á árunum 2015 til 2018 og fálkastofninn síðan í kjölfarið.


Hlutfall fálkasetra í ábúð.

 

Fálkinn verpir mjög snemma árs, fuglarnir byrja í tilhugalífi í mars og eggjunum er orpið í apríl. Varpárangur helgast mjög af tíðarfari. Varpárangur fálkans 2011 var í slöku meðallagi miðað við fyrri ár. Meðalfjöldi fleygra unga á óðalspar var 1,17, en samandregið fyrir öll árin var meðalgildið 1,35 ungar á óðalspar (sjá línurit hér fyrir neðan). Tíðin var óhagstæð fálkanum í maí (kuldi og snjóar) og aftur í lok júní (kalsarigning í þrjá daga), afleiðingin var að nokkur pör afræktu og eins króknuðu ungar í hreiðrum.

 


Fálkaungar á óðalspar.

 

Samandregið eru niðurstöður fálkatalninga 2011 í samræmi við það sem vænta mátti miðað við ástand rjúpnastofnsins og tíðarfar. Ljóst er að vegna niðursveiflu rjúpunnar mun fálkum fækka á næstu árum.