Vel heppnaður rannsóknaleiðangur í jökuleyjar í Vatnajökli

Megintilgangur ferðarinnar var að greina gróður í föstum reitum í Skálabjörgum auk þess sem Esjubjörg voru heimsótt og og háplöntuflóra þeirra skráð og fléttum safnað. Sérstaka athygli vakti að í um 950 m hæð í Esjubjörgum fannst strimlaflaga, Endocarpon pulvinatum, sjaldgæf flétta sem hingað til hafði einungis fundist á þremur öðrum stöðum á landinu. Í ferðinni var einnig safnað jarðvegssýnum og sýni tekin til greiningar á örverum í jarðvegi.

Líkt og annars staðar á landinu var gróður með seinna móti í Esjufjöllum enda gróðurlendin þar í meira en 650 m hæð yfir sjávarmáli. Allnokkurt öskufall hafði greinilega orðið þar í Grímsvatnagosinu en askan var þó mjög misdreifð og hafði aðallega safnast fyrir á fönnum og snjósköflum í skýldum giljum. Yfir sumum föstu reitanna lá nokkurt öskulag meðan lítil ummerki um öskufallið voru merkjanleg í öðrum. Áhugavert er að sjá hvort öskufallið hafi áhrif á gróðurfar reitanna þegar þeir verða kannaðir næst.

Miklar og hraðar breytingar eru að eiga sér stað í umhverfi Esjufjalla vegna bráðnunar Breiðamerkurjökuls. Þannig hefur Breiðamerkurjökull vestan Skálabjarga og vatnsborð Fossadalslóns lækkað um tæpa 15 metra síðan 2006. Einnig má sjá nokkurt landnám háplantna og mosa í neðstu föstu reitunum frá 2006 en þegar þeir voru merktir voru þeir algjörlega gróðurvana.

Esjubjörg, minnsti fjallsrani Esjufjalla, var einnig heimsóttur að þessu sinni. Alls hafa fundist um 50 tegundir háplantna í Esjubjörgum og 25 tegundir fléttna. Síðast komu grasafræðingar í Esjubjörg árið 1979 þegar stór hópur vísindamanna dvaldi í Esjufjöllum nokkra hríð en þá var bæði jarðfræði og smádýralíf kannað í Esjufjöllum auk gróðursins. Óvæntur fundur varð í Esjubjörgum en þar fannst strimlaflaga, Endocarpon pulvinatum, en sú tegund fannst fyrst 1996 við Lagarfljót. Síðar hefur tegundin fundist í Sauðárgljúfri, en sá fundarstaður fór undir Kárahnjúkalón, og í gili Héraðsvatna. Strimlaflaga er um margt merkileg tegund. Hún tilheyrir svertuætt líkt og fjörusverta, korpur og pírur en strimlaflaga er eina tegund þeirrar ættar sem hefur runnkenndan vöxt (flestar tegundanna eru hrúðurkenndar en nokkrar mynda hreistrur eða eru blaðkenndar). Nýlegar sameindafræðilegar rannsóknir benda ennfremur til að strimlaflaga sé skyldari vörtum, Staurothele, en öðrum flögum, Endocarpon.

Leiðangursmenn voru: Starri Heiðmarsson grasafræðingur og Linda Ársælsdóttir líffræðinemi frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor og Helena Marta Stefánsdóttir frá LBHÍ auk þess sem Leena Finer, prófessor við Háskólann í Joensuu í Finnlandi var með í för.