Nýir landnemar og landbreytingar í Surtsey 2011


Surtsey. Horft til suðurs yfir norðurtanga, Austurbunka (til vinstri) og Vesturbunka (til hægri). Ljósm. Kristján Jónasson.

Árlegur leiðangur Náttúrufræðistofnunar Íslands til Surtseyjar var farinn dagana 18.–21. júlí. Í leiðangrinum voru fjórir starfsmenn stofnunarinnar, auk þátttakenda frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Umhverfisstofnun. Leiðangurinn var farinn í samvinnu við Surtseyjarfélagið. Í Surtsey voru gerðar rannsóknir á jarðfræði og lífríki eyjarinnar. Það sem hæst ber eftir leiðangurinn er að tungljurt (Botrychium lunaria) fannst í eynni í fyrsta sinn en hún er sjötugasta tegund háplantna sem nemur þar land. Af smádýrum fundust tvær nýjar tegundir bjallna. Sjávarrof meitlar stöðugt af eynni og talsverðar breytingar hafa orðið á norðurtanga eyjarinnar frá síðasta ári. Á 44 árum hefur ströndin á vestanverðum tanganum færst um 500 m inn að hrauni sem rann út á tangann í lok Surtseyjargossins, 1967.

Jarðfræði

Rannsóknir á móbergi í Surtsey eru afar mikilvægar fyrir jarðvísindin. Í leiðangrinum var safnað móbergssýnum til frekari rannsókna auk þess sem tekið var sýni af gjósku.

Á síðustu árum hefur verið fylgst með brotasprungum í Vestur- og Austurbunka og í leiðangrinum voru sprungurnar merktar með GPS staðsetningartæki og hitastig þeirra mælt. Hiti í sprungum efst í Vestur- og Austurbunka mældist vel yfir 90°C.

Óhörnuð gjóska í hlíðum Vestur- og Austurbunka er sundurskorin af vatnsrofi Surtsey - Hitamæling í sprungu með gufuútstreymi á Vesturbunka
Óhörnuð gjóska í hlíðum Vestur- og Austurbunka er sundurskorin af vatnsrofi. Á myndinni má sjá sprunguhryggi á Vesturbunka sem myndast vegna hitaummyndunar móbergs við sprungurnar. Ljósm. Kristján Jónasson. Hitamæling í sprungu með gufuútstreymi á Vesturbunka. Ljósm. Kristján Jónasson.

Tanginn norðan í eynni er sífellt að færast til þar sem sjávaraldan er bæði að brjóta hann niður og fóðra hann með efni. Efnið, eða setið, eru stórir hnullungar sem eiga uppruna sinn að rekja til hrauna og móbergs Surtseyjar. GPS mælingar sýndu að nyrsti hluti tangans hefur flust um 40 m til austurs og er um 100 m styttri en fyrir ári síðan. Umhverfis tangann er um 4-5 m hár sjávarkambur. Í vetur hefur sjórinn rofið skarð í kambinn og kemur þar fram hraun sem rann í byrjun janúar 1967. Upprunalega var hraunjaðarinn um 500 m frá vesturströndinni en sést núna í flæðarmálinu, 44 árum síðar. 

Jarðfræðikortið sýnir vel hvernig Surtsey hefur minnkað síðustu 43 árin og útbreiðslu hraunsins sem rann til norðurs í lok Surtseyjargossins 1967 Surtsey - hraunið frá gígnum Strompi má nú sjá aftur í flæðarmálinu, 44 árum eftir að það rann.

Jarðfræðikortið sýnir vel hvernig Surtsey hefur minnkað síðustu 43 árin og útbreiðslu hraunsins sem rann til norðurs í lok Surtseyjargossins 1967

Hraunið frá gígnum Strompi má nú sjá aftur í flæðarmálinu, 44 árum eftir að það rann. Ljósm. Borgþór Magnússon.



Sprunga við bjargbrún og sjávarrofnir klettar í suðurhluta Surtseyjar. Ljósm. Kristján Jónasson.


Gróður

Tungljurt, sem fannst í eynni í leiðangrinum, er smávaxinn burkni af naðurtunguætt. Tegundin er útbreidd og algeng um land allt. Hún vex þar sem gróður er fremur gisinn og lágvaxinn. Í Surtsey fannst tungljurt á þremur blettum í rýru graslendi á suðurhluta eyjarinnar. Þrátt fyrir að ný tegund hafi skotið rótum fækkaði í flóru eyjarinnar um eina tegund frá 2010. Alls voru nú skráðar 59 tegundir háplantna á lífi af þeim 70 tegundum sem þar hafa fundist. Frá árinu 2007 hefur tegundum heldur fækkað. Þá voru þær flestar eða 65 skráðar á lífi. Gróður er hins vegar stöðugt að þétta sig, einkum í máfavarpinu á suðurhluta eyjarinnar. Þar hefur myndast gróskumikið graslendi af melgresi, túnvingli, vallarsveifgrasi, baldursbrá og fleiri tegundum.

Tungljurt í graslendi, nýr landnemi í Surtsey 2011 Strandgróður á norðurhluta Surtseyjar
Tungljurt í graslendi, nýr landnemi í Surtsey 2011. Ljósm. Borgþór Magnússon. Strandgróður á norðurhluta Surtseyjar. Hér vaxa fjörukál, fjöruarfi, blálilja og melgresi. Tegundirnar bárust allar með sjó til eyjarinnar og námu þar land fyrir 1970. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Í leiðangrinum var mæld ljóstillífun í gróðri og öndun í jarðvegi eins og undanfarin ár. Einnig voru tekin sýni af jarðvegi í melþúfum á mismunandi aldri til að kanna í þeim uppbyggingu á kolefnis- og köfnunarefnisforða. Aðstæður til slíkra rannsókna í Surtsey eru mjög góðar vegna þess hve vel aldur einstakra plantna og gróðurbletta hefur verið skráður.

Baldursbrá skreytir graslendi á hraunklöppum í máfavarpi á suðurhluta Surtseyjar. Surtsey - Sandorpið hraun á norðaustur hluta Surtseyjar, Vestmannaeyjar í baksýn
Baldursbrá skreytir graslendi á hraunklöppum í máfavarpi á suðurhluta Surtseyjar. Ljósm. Borgþór Magnússon. Sandorpið hraun á norðaustur hluta Surtseyjar, Vestmannaeyjar í baksýn. Ljósm. Borgþór Magnússon.



Dýralíf

Líklegt er að 11 tegundir fugla hafi verpt í Surtsey í ár, en alls hafa verið skráðar þar 15 tegundir varpfugla frá árinu 1970. Af sjófuglum í varpi voru nú skráð teista, fýll, lundi, rita, svartbakur, sílamáfur og silfurmáfur, en af landfuglum sólskríkja, maríuerla, þúfutittlingur og hrafn. Eins og fyrri ár var langmest af fýl, svartbak, sílamáf og silfurmáf í eynni. Hrafnspar hefur verpt í Surtsey frá árinu 2008. Nú sást til þeirra með tvo fleyga unga.


Svartbakspar á varðbergi í Surtsey. Svartbakur hóf að verpa í eynni árið 1974, fyrstur máfa. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Smádýr létu fremur lítið á sér kræla meðan á leiðangrinum stóð en þurrt var í veðri og mjög sólríkt. Engu að síður varð vart við nýjar tegundir smádýra, þar á meðal tvær tegundir bjallna, járnsmið og silfurrana. Settar voru upp gildrur til að fanga smádýr meðan dvalið var í eynni. Ekki hefur gefist færi á að vinna úr sýnunum og því kann fleira nýstárlegt að koma í leitirnar síðar.

Leiðangursmenn

Þátttakendur frá Náttúrufræðistofnun Íslands voru Borgþór Magnússon, leiðangursstjóri, Erling Ólafsson, Lovísa Ásbjörnsdóttir og Kristján Jónasson; Bjarni Diðrik Sigurðsson og Guðrún Stefánsdóttir frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Þórdís Vilhelmína Bragadóttir frá Umhverfisstofnun.