Skoffínið kveðið niður - minningargrein

Heimildir af skoffínum er helst að finna í þjóðsögum sem þykja ekki mjög ábyggilegar eða tilefni til vísindaiðkana, með undantekningum þó. Ein saga af skoffíni frá miðri síðustu öld var skjalfest með áþreifanlegum hætti þannig að téð dýr var stoppað upp og er að finna enn þann daginn í dag hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í tímaritinu Degi frá 1. febrúar 1956 er höfð eftir eiganda „Dýrsins frá Jökulsárdal“ hjartnæm ástarsaga silfurrefs og hundstíkur (sjá frásögn hér fyrir neðan).

Náttúrufræðistofnun býr svo vel að geta skorið úr um með aðferðum erfðafræðinnar rétt eins og réttarlæknisfræðin um meintan glæp eða faðerni. Við rannsókn á vefjasýnum úr Dýrinu frá Jökulsárdal var beitt tegundasértækri PCR aðferð þar sem leitað var að erfðaefni hunds eða refs. Í stuttu máli sagt var niðurstaðan sú að dýrið reyndist vera hundur.

Í öllum tilfellum þar sem lifandi skoffín hafa komið til álita á þeim svæðum heims sem refi er að finna hefur það sýnt sig að þar sé aðeins á ferðinni náttúrulegur breytileiki í hundinum. Hin fjölmörgu hundaafbrigði eru til marks um hinn mikla sveigjanleika í ræktun þessa gæludýrs. Hundurinn er kominn af úlfum og geta þessar tvær tegundir eignast frjó afkvæmi saman. Refurinn er hins vegar fjarskyldur úlfinum og þá um leið hundinum og gerir því hinn gríðarlegi erfðalegi munur á milli refs og hunds skoffínið álíka líklegt og kattína sem væri þá blendingur á milli kattar og kanínu.

Það er ekkert við því að amast að fólk trúi á þjóðsögur. Vísindi og hjátrú (eða hindurvitni) geta lifað góðu lífi án hvors annars. Ef fólki er annt um þjóðsögur og kynjaverur ætti það að forðast vísindalega úttekt, eins og faðernisprófið á hinu téða skoffíni.

Í nafni vísindanna vill höfundur þessarar greinar biðja Otur frá Jökulsá (1942-1951) og hundingja hans velvirðingar á eineltinu og þeirri vanvirðingu sem hann hefur orðið fyrir með því að vera kallaður skoffín. Blessuð sé minning hans.

Kristinn P. Magnússon, erfðafræðingur


Skoffín prýðir íslenskt frímerki sem kom út á árinu. Frímerkið er hannað af Hlyni Ólafssyni og myndin teiknuð af Jóni Baldri Hlíðberg. (Mynd fengin á vefnum www.postur.is.)

Dýrið á Jökulsá (haft eftir Grími Sigurðssyni fyrrum bónda á Jökulsá)

Eru skoffín og skuggabaldur aldauða? Dagur 1. febrúar 1956.

Ástafundir á útmánuði

Svo bar til um 1942, að svört tík á Jökulsá, hvarf á aflíðandi vetri í stórhríðarveðri. Ekki voru þá aðrir bæir byggðir á Flateyjardal, en Jökulsá og Brettingsstaðir. Hugði Grímur bóndi að hún hefði farizt, annað hvort niður um sprungu í ís á ánni eða á annan hátt. Skrapp hann þó að Brettingsstöðum til að spyrjast fyrir um tíkina. En þar hafði hennar ekki orðið vart og heimarakkar tveir ekki farið af bæ. Þótti þá sýnt að ekki var allt með felldu. Tíkin var mjög heimakær og fór aldrei útaf heimilinu, nema í fylgd með heimafólki, en nú var því ekki til að dreifa. En eftir rúma þrjá sólarhringa kom sú svarta heim. Var þá enn hríðarveður og mikið frost. Sást fyrst til hennar sunnan við tún, þar sem hún var að snuðra og fór sér að engu óðslega. Hún var ekki áberandi soltin, þurr og þokkaleg og bar þess engin merki að hún hefði verið á ferðalagi í stórhríð. Var heldur ekki líklegt að svo hefði verið. Til næsta bæjar, að Garði í Fnjóskadal var 30 km vegalend og yfir í Fjörðu um háfjöll að fara.

Ekkert verulega var um atvik þetta hugsað fyrst í stað og leið svo fram undir vorið. Var þá sýnt að sú svarta fór ekki einsömul og gerðist hún gildari með degi hverjum. Kom þar að hún gaut og átti nokkra hvolpa fríska og fallega. Tveir þeirra voru mjög sérkennilegir á litinn. Þeir voru bláleitir nokkuð. Höfðu menn ekki séð þennan lit á hvolpum og varð þetta til það að annar þeirra var látinn lifa en hinum fargað.

Stór silfurrefur kemur í heimsókn

En svo bar við, rétt um sama leyti að tíkin gaut á Jökulsá, að stór silfurrefur kom heim að bæ. Grímur kom auga á hann og brá sér inn eftir byssu sinni og skotfærum. Ekki vildi refurinn bíða og fjarlægði sig svo að ekki varð komið á hann skoti. Barst leikurinn til fjalls. Þar var dimm þoka og skildi þar með þeim. Þessi stóri silfurrefur var fremur gæfur og var því líkast að hann ætti nokkurt erindi heim að Jökulsá. Hélt sig í nokkurn veginn jafnri fjarlægð frá skyttunni, um 200 m. Þessi silfurrefur hefur aldrei sézt síðan, svo kunnugt sé. Hann er þó ekki úr sögunni því með tiltæki sínu gaf hann tilefni til þeirra spurningar hvort hann hefði þarna verið að vitja maka síns og afkvæma að Jökulsá. Verður þeirri spurningu líklega aldrei svarað til fulls.