Góðæri hjá geitungum

Trjágeitungum (Dolichovespula norwegica) féllu sjaldan verk úr hendi í hlýindunum og úrkomuleysinu í júlí og mátti sjá þá að störfum allan sólarhringinn á höfuðborgarsvæðinu. Stundum hafa fundist fleiri en eitt bú í einum og sama garðinum, allt að fjögur, og önnur til viðbótar í nálægum görðum. Slíkir „hnappar“ koma væntanlega til af því að bú hefur getið af sér drottningar í nágrenninu síðastliðið haust. Trjágeitungsbúin eru nú flest hver farin klekja út nýrri kynslóð drottninga, en þeirra bíður næsta sumar.

Holugeitungar (Vespula vulgaris) fara hægar í sakirnar en bú þeirra taka mestan vaxtarkipp í ágúst og nýju drottningarnar líta dagsins ljós í september. Búin eru sjaldnast sýnileg og finnast því sjaldan fyrr en íbúum þeirra tekur að fjölga verulega. Því má búast við að holugeitungsbú finnist í auknum mæli á næstu vikum.

Roðageitungur (Vespula rufa) er enn við líði. Þerna fannst í Kópavogi í byrjun ágúst en bú hefur ekki fundist ennþá. Húsageitungs (Vespula germanica) hefur ekki orðið vart í sumar. Hann sást heldur ekki síðastliðið sumar svo e.t.v. er hann horfinn á braut. Hann hefur átt mjög í vök að verjast á undanförnum árum.

Trjágeitungur - Dolichovespula norwegica Holugeitungur - Vespula vulgaris
Trjágeitungsbú í ilmreyni í Kópavogi. Ljósm. Erling Ólafsson. Holugeitungsbú í jörðu í Hafnarfirði (hraunhella hefur verið fjarlægð). Ljósm. Erling Ólafsson.

Roðageitungurinn fágæti, fundinn í Fossvogi 2008. Ljósm. Erling Ólafsson.