Darwin í 200 ár


Árið 2004 kom Uppruni tegundanna út á íslensku hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Það er leitun að riti á borð við Uppruna tegundanna sem hefur umbylt jafn rækilega hugmyndum alþýðu manna um eigin rætur og stöðu í tilverunni. Allt frá því að bókin kom fyrst út hefur hún verið endurprentuð ótal sinnum á enskri tungu og verið þýdd á 34 mál. Enn á ný eru prentaðar viðhafnarútgáfur af verkum Darwins í tilefni af tveggja alda afmælisárinu. Margar ástæður eru fyrir því að yfirlitsrit í líffræði er jafnvel meira lesið af fróðleiksfúsum almenningi en allskyns sérfræðingum. Mörg af ritverkum Darwins eru fyrir löngu orðin hluti af sígildum bókmenntum vesturlanda. Sennilega skiptir þar miklu að Darwin fjallar um helstu viðfangsefni líffræðinnar á auðskildu alþýðumáli, jafnvel þótt setningarnar geti verið býsna langar og í margslungnum Viktoríustíl. Darwin er tamt að grípa til skáldlegra myndlíkinga við að skýra mál sitt og sumar þeirra eru allt að því ljóðrænar:

„Ég held að hið mikla lífsins tré vaxi á svipaðan hátt og þegar brum á tré myndar nýja grein, sem enn á ný myndar brum, og að sum þeirra verði að þróttmiklum greinum, sem breiða úr sér og kæfa aðra veigaminni og nærliggjandi sprota. Á sama hátt stefna dauðir og brotnir ættmeiðir lífsins upp í gegnum jarðlögin, uns þeir breiða úr sér um yfirborð jarðar og þekja það fögrum greinum sem stöðugt mynda nýja vaxtarsprota.“ (Uppruni tegundanna bls. 216, Hið íslenska bókmenntafélag, Rvk. 2004).

Slíkur texti höfðar augljóslega til fleiri en þeirra sem hafa þröngan áhuga á náttúrufræði, enda getur ‘vísindaleg skynsemi verið skáldleg á sama hátt og góður skáldskapur er skynsamlegur’.

 

Í dag verður haldið málþing við HÍ í tilefni tveggja alda fæðingarafmælis Darwins.

Aragrúa upplýsinga um Darwin er að finna á vefnum, m.a. hjá Ameríska Náttúrugripasafninu og Náttúrugripasafninu í London, þar sem Uppruni tegundanna er til sýnis m.a. á íslensku.