Dregur úr vexti arnarstofnsins - 43 pör með hreiður í ár


Ungir ernir eru dökkir yfirlitum og með dökkan gogg. Þessi er tæplega 2ja ára og sást í grennd við fóðurbretti á Snæfellsnesi í mars 2008. Ljósm. Kristinn Haukur Skarphéðinsson.

Talningar vorið 2008 benda til þess að arnarstofninn sé svipaður og undanfarin þrjú ár eða um 65 fullorðin pör. Vitað er um 43 hreiður sem orpið var í og því hefur þriðjungur paranna ekki orpið í ár. Tíðarfar hefur verið örnum hagstætt það sem af er en ernir verpa um og fyrir miðjan apríl. Ungarnir klekjast í lok maí en verða ekki fleygir fyrr en um miðjan ágúst.

Ernir verpa nú eingöngu vestanlands og þá aðallega við Breiðafjörð, en einnig við norðanverðan Faxaflóa, á Vestfjörðum og við Húnaflóa á allra síðustu árum. Fram yfir aldamótin 1900 urpu ernir í öllum landshlutum en var útrýmt víðast hvar með skotum og eitri. Um miðja síðustu öld lá við útrýmingu stofnins en þá voru aðeins um 20 pör í öllu landinu.

Arnareldhús á Snæfellsnesi

Í febrúar 2008 var sett upp fóðurbretti fyrir erni á norðanverðu Snæfellsnesi að tilhlutan Fuglaverndarfélagsins og arnarvina í Stykkishólmi. Ætlunin er að bera út æti fyrir erni síðla hausts og fram á vor og létta ungum örnum lífsbaráttuna fyrstu árin. Einnig verður auðveldara að fylgjast með einstökum fuglum en allir ernir hafa verið litmerktir frá 2004 og er því hægt að greina einstaklinga á færi með myndatöku eða í sterkum sjónaukum.

Vefmyndavél við arnarhreiður

Í Reykhólasveit vinna heimamenn að því að koma á fót Arnarsetri – fræðslumiðstöð um erni og lífháttu þeirra. Forsvarsmaður þeirra er Bergsveinn Reynisson á Gróustöðum. Meðal annars er ætlunin að setja upp vefmyndavél við arnarhreiður nú sumar svo hægt sé að fylgjast með heimilislífi arnarins úr fjarlægð.

Náttúrufræðistofnun Íslands vaktar arnarstofninn í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands, áhugamenn og Náttúrustofurnar í Stykkishólmi og Bolungarvík.