Heilbrigði rjúpunnar og stofnbreytingar

Stærð íslenska rjúpnastofnsins sveiflast með nokkuð reglubundnum hætti og líða um 10 ár á milli hámarka. Hliðstæðar stofnsveiflur eru þekktar hjá ýmsum tegundum grasbíta á norðurslóðum, bæði spendýrum, fuglum og skordýrum. Almennt er talið að aflvaki sveiflunnar sé innan fæðuvefsins, að sveiflan endurspegli samspil grasbítsins og þeirra plantna sem hann lifir á eða að orsakavaldurinn sé þrepi ofar í fæðuvefnum en grasbíturinn, þ.e. þau rándýr, sníkjudýr eða sóttkveikjur sem á hann herja.


Áður óþekkt tegund hnísils, Eimeria rjupa.

Samstarf um rjúpnarannsóknir hefur tekist á milli vísindamanna við Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóla Íslands. Vísindamennirnir við Náttúrufræðistofnun eru fuglafræðingarnir Ólafur K. Nielsen og Guðmundur A. Guðmundsson, og við Háskólann Karl Skírnisson, sníkjudýrafræðingur, Ólöf Guðrún Sigurðardóttir, meinafræðingur, lífeðlisfræðingarnir Sighvatur Sævar Árnason og Björg Þorleifsdóttir, og Gunnar Stefánsson, tölfræðingur. Einn framhaldsnemi vinnur við rannsóknirnar, Sólrún Þóra Þórarinsdóttir. Aðrir samstarfsaðilar við rannsóknirnar eru vísindamenn við Náttúrustofu Norðausturlands á Húsavík, fuglafræðingarnir Þorkell L. Þórarinsson og Aðalsteinn Ö. Snæþórsson.

Markmið rannsóknanna er að kanna tengsl heilbrigðis íslensku rjúpunnar við stofnbreytingar. Unnið verður með rjúpur frá Norðausturlandi, en þar hefur Náttúrufræðistofnun Íslands staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum á stofnvistfræði rjúpu frá 1981. Þeim rannsóknum verður fram haldið sem einni meginforsendu þeirra rannsókna sem hér eru kynntar. Rannsóknirnar munu standa í fimm ár hið minnsta (2006-2010) og taka til nokkurra þátta sem endurspegla heilbrigði, þ.e. holdarfar, sjúkdómsvalda, virkni ónæmiskerfis og fitukirtils og streituástand. Í október á hverju ári verður 100 fuglum safnað til rannsókna, 40 fullorðnum fuglum og 60 fuglum á fyrsta ári. Kynjahlutföll eru jöfn.


Ný tegund af kláðamaur. Hann orsakar hrúðurmyndun.

Forrannsóknir 2006 og 2007 sýna að ekki færri en 12 tegundir sníkjudýra herja á rjúpuna. Sex tegundir óværu hafa fundist á rjúpunni, þar af a.m.k. þrjár tegundir maura, tvær naglúsategundir og lúsflugan. Innvortis hafa fundist tvær tegundir þráðorma, bandormstegund og einnig þrjár tegundir einfrumunga. Meðal einfrumunganna eru tvær hníslategundir sem báðar voru áður óþekktar í vísindasamfélaginu. Við fyrstu skoðun virðast það helst hníslarnir og ein maurategundin sem valda rjúpunni skaða.


Rjúpa sem orðið hefur fyrir kláðamaurnum. Pirringur og aukið álag herja á fuglinn.

Meginspurningarnar í þessum rannsóknum eru annars vegar hvort tengsl séu á milli heilbrigðis rjúpunnar og stofnbreytinga og hins vegar hver séu innbyrðis tengsl þeirra þátta sem lýsa heilbrigði rjúpunnar. Skoðað verður hvort þessir heilsufarsþættir breytist í takt við stofnsveiflu rjúpunnar. Fyrsta árið í þessum samanburði verður 2006 og það síðasta 2010. Miðað við fyrri reynslu munu þessi ár spanna fall rjúpnastofnsins í lágmark. Mikilvægi verkefnisins felst í því að varpa nýju ljósi á orsakir reglubundinna stofnbreytinga dýra, náttúrufyrirbæri sem hefur fangað hugi manna í áratugi.

Nánar um hnísla.

Mynd í upphafi fréttar er af lúsflugu. Allar myndir eru teknar af Karli Skírnissyni.