Netluygla (Xestia c-nigrum)

Útbreiðsla

Norðurhvel. Evrópa norður fyrir miðbik Skandinavíu og suður til N-Afríku, Asía austur til Kyrrahafs, norðanverð N-Ameríka stranda á milli og suðum með Klettafjöllum; Færeyjar.

Ísland: Fágætur flækingur fundinn á tveim stöðum á Suðausturlandi, Kvískerjum í Öræfum og Höfn í Hornafirði.

Lífshættir

Í heimahögum koma fram á sumri hverju tvær kynslóðir nema nurst á útbreiðslusvæðinu, t.d. í N-Englandi og Skotlandi, þar sem sumartíminn dugar aðeins einni kynslóð. Í nágrannalöndum fljúga fiðrildin frá lokum maí og fram í byrjun október. Kynslóðirnar renna saman og eru skilin milli þeirra eftir miðjan júlí. Síðari kynslóðin er mun fjölliðaðri. Lirfurnar hafa fjölbreyttan matseðli en þær nærast á allskyns plöntum, bæði trjám, runnum og jurtkenndum tegundum en netluyglan hefur dálæti á brenninetlu (Urtica dioica). Lirfur finnast frá hausti til vors, liggja í vetrardvala og nærast jafnvel að einhverju marki í mildum vetrum. Þær púpa sig í jörðu að dvalanum loknum. Einnig þroskast lirfur á miðju sumri þar sem kynslóðir eru tvær.

Almennt

Það er flakk á netluyglum í Evrópu á haustin en talið er að fjölgun á hausti á Bretlandseyjum sé þannig til komin að einhverju leyti að yglur berist þangað frá suðlægari slóðum. Netluygla fannst fyrst hérlendis í september 1998 á Kvískerjum í Öræfum er ein slík kom í ljósgildru. Í sama mánuði 2002 náðust tvær til viðbótar á sama stað og sama hátt. Um miðjan janúar 2004 fannst ein lifandi innanhúss í Höfn í Hornafirði sem óneitanlega bendir til hún hafi borist til landsins haustið á undan og jafnvel komið sér fyrir til vetrarsvefns. Í ágúst sama ár náðist svo enn ein á Kvískerjum og þrjár í september 2008. Loks bar svo við að í fjölbreyttri fiðrildagöngu sem barst til landsins í kringum 10. september 2010 að netluyglan var sú tegund sem kom í gildrur á Kvískerjum í langmestum fjölda en á nokkrum nóttum veiddust allt að 50 yglur. Af framanskráðu má sjá að netluyglu er helst að vænta hingað til lands í september.

Netluygla er meðalstór ygla og afar breytileg á lit. Grunnlitur framvængja er ýmist ljósrauðbrúnn, grábrúnn, svarbrúnn eða hvað sem er þar á milli. Hún er þó alltaf auðþekkt á allstórum ljósgráum þríhyrningslaga bletti við framjaðar vængsins, u.þ.b. á miðjum vængnum sem gengur inn í svartan reit inni á vængfletinum og leggst þar yfir hringblettinn. Til hliðar á frambol mynda hreisturflögurnar þorn eða toppa sem lyftast upp frá bolnum.

Útbreiðslukort

Heimildir

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2004. Nye og sjældne fund af sommerfugle på Færøerne. Lepidoptera bind VIII, nr. 7: 225–233.

Ríki Vatnajökuls. Frétta- og upplýsingavefur Hornafjarðar 2004. Björn hefur forustuna með 79 fuglategundir. http://www2.hornafjordur.is/fuglar/nr/1027 [skoðað 15.9.2010]

Rigth Health. Setaceous Hebrew Character. http://www.righthealth.com/topic/Setaceous_Hebrew_Character [skoðað 15.9.2010]

Skinner, B. 1998 (second edition). Colour Identification Guide to Moths of the British Isles (Macrolepidoptera). Viking, Penguin Group, London. 276 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmark Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wikipedia. Setaceous Hebrew Character. http://en.wikipedia.org/wiki/Setaceous_Hebrew_Character [skoðað 15.9.2010]

Höfundur

Erling Ólafsson 15. september 2010, 12. mars 2013.

Biota

Tegund (Species)
Netluygla (Xestia c-nigrum)